- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sænsku meistararnir mæta þeim íslensku í Krikanum í kvöld

Símon Michael Guðjónsson, Ólafur Gústafsson, Jóhannes Berg Andrason og Jón Bjarni Ólafsson leikmenn FH er tilbúnir að mæta sænsku meisturunum IK Sävehof í Kaplakrika í kvöld. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

FH-ingar taka á móti sænsku meisturunum, IK Sävehof, í Kaplakrika í kvöld í þriðju umferð í H-riðli Evrópudeildarinnar í handknattleik. Flautað verður til leiks klukkan 18.45. Verður að vanda mikið um dýrðir hjá FH í Kaplakrika eins og ævinlega þegar félagið stendur fyrir stórviðburðum.

Miðasala á leikinn – smellið hér.

  • Selfyssingurinn Tryggvi Þórisson er leikmaður IK Sävehof. Hann er á sínu þriðja tímabili með liðinu.
  • FH-ingurinn Ágúst Elí Björgvinsson varð sænskur meistari með IK Sävehof vorið 2019. Ágúst Elí lék með liðinu í tvö ár, 2018 – 2020.
  • IK Sävehof, sem er með bækistöðvar í Partille sem mörgu íslensku handknattleiksfólki er að góðu kunnugt, varð sænskur meistari í handknattleik karla í áttunda sinn í vor og í fyrsta sinn síðan 2021.
  • Færeyska ungstirnið Óli Mittún leikur með Sävehof. Hann er aðeins 19 ára gamall og var m.a. með færeyska landsliðinu á EM í Þýskalandi í upphafi þessar árs. Óli var markakóngur EM 20 ára landsliða í sumar, HM 19 ára landsliða sumarið 2023 og á EM 18 ára landsliða 2022.
  • Michael Apelgren sem á dögunum var ráðinn þjálfari sænska karlalandsliðsins hætti hjá Sävehof í sumar eftir fjögur ár í þjálfarastóli til þess að taka við ungverska liðinu Pick Szeged. Við þjálfun Sävehof tók Linus Ekman. Hann er einungis 31 árs gamall.
  • Sävehof er í öðru sæti sænsku úrvalsdeildarinnar eftir sjö umferðir með 10 stig, tveimur stigum á eftir Ystads.
  • Skráður læknir Sävehof-liðsins er Íslendingur, Stefán Guðmundsson.
Daníel Freyr Andrésson markvörður FH lék um árabil í sænsku úrvalsdeildinni. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
  • Félögin eru í svipuðum sporum í keppninni. Hvorugt hefur ennþá krækt í stig og þau hafa mætt sömu liðunum.
  • IK Sävehof tapaði fyrir Gummersbach í fyrstu umferð riðlakeppninnar, 37:35, í Gummersbach. Fyrir viku beið sænska meistaraliðið lægri hlut fyrir franska liðinu Fenix Toulouse, 37:31.
  • FH tapaði fyrir Fenix Toulouse, 37:30, í Frakklandi í fyrstu umferð og 40:21 fyrir Gummersbach í Kaplakrika á síðasta þriðjudag.

Miðasala á leikinn – smellið hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -