-Auglýsing-

Sætaskipti eftir óvænta spennu á lokamínútunum

- Auglýsing -

Fram hafði sætaskipti við ÍR í fjórða og fimmta sæti Olísdeildar kvenna í handknattleik í dag með tveggja marka sigri í viðureign liðanna í Lambhagahöllinni, 32:30. Fram var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 18:14.

Framarar voru með yfirhöndina í leiknum frá byrjun til enda. Virtist sem sigur liðsins yrði öruggur því ítrekað náði Fram sjö marka forskoti í síðari hálfleik, ekki síst fyrir klaufaskap ÍR-inga í sókninni. Þeir töpuðu boltanum hvað eftir annað á einfaldan hátt. Virtust taugar leikmanna vera þandar til hins ítrasta á köflum.

Spenna í lokin

Þrátt fyrir gott forskot Fram þá hljóp nokkur spenna í leikinn á lokakaflanum eftir að ÍR breytti í 3/3 vörn. Varð það til að Framarar gerðu hvert axarskaftið eftir annað og misstu forskotið niður í tvö mörk, 31:29, þegar rúm mínúta voru til leiksloka. Nær komust þær ekki en þegar möguleiki virtist vera að gefast á að minnka muninn í eitt mark þá náði Ásdís Guðmundsdóttir að vinna boltann í sókninni, akkúrat þegar boltinn virtist á leið til ÍR-inga. Ásdís skoraði, 32:29, innan við mínútu fyrir leikslok.

Tvö rauð spjöld

Tvö rauð spjöld fóru á loft í leiknum, bæði á Framara. Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín fékk rautt spjald við þriðju brottvísun eftir 25 mínútur er skot hennar fór í höfuð markvarðar ÍR. Eftir um tíu mínútur í síðari hálfleik fékk Kristrún Steinþórsdóttir rautt spjald fyrir að ganga vasklega fram í vörninni að mati Svavars Ólafs Péturssonar og Þorvars Bjarma Harðarsonar dómara sem létu til sín taka í leiknum.


Mörk Fram: Hulda Dagsdóttir 8/7, Ásdís Guðmundsdóttir 5, Katrín Anna Ásmundsdóttir 5, Harpa María Friðgeirsdóttir 4, Valgerður Arnalds 4, Sóldís Rós Ragnarsdóttir 2, Kristrún Steinþórsdóttir 1, Hildur Lilja Jónsdóttir 1, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 1, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín 1.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 10, 27,8% – Arna Sif Jónsdóttir 0.

Mörk ÍR: Sara Dögg Hjaltadóttir 12/3, Vaka Líf Kristinsdóttir 6, Katrín Tinna Jensdóttir 5, Sigrún Ása Ásgrímsdóttir 3, Matthildur Lilja Jónsdóttir 3, María Leifsdóttir 1.
Varin skot: Sif Hallgrímsdóttir 15, 31,9%.

Tölfræði leiksins hjá HBStatz.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -