„Ég mun sætta mig við þá ákvörðun sem þýska handknattleikssambandið tekur. Ég mun líka áfram vera gríðarlegur aðdáandi þessa liðs, því ég er afar stoltur af því,“ segir Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalands í handknattleik karla í viðtali við SID sem m.a. er birt á handball-world. Alfreð er með samning við þýska handknattleikssambandið fram til ársins 2027. Þess vegna gæti EM í næsta mánuði orðið hans síðasta Evrópumót með þýska landsliðið en eins hjá öðrum þjálfurum þá skiptir árangur máli.
Vill halda áfram í þjálfun
„Ég hef átt afar gott samband við DHB (þýska handknattleikssambandið) og er alltaf í samskiptum við stjórnendur. Ef þeir telja rétt að fá yngri þjálfara þá er heill hellingur af virkilega góðum slíkum í Þýskalandi. Ég mun virða þá ákvörðun sem verður tekin Ég er búinn að vera svo lengi í þessu að ég myndi auðvitað gjarnan vilja halda áfram að vinna með liðinu en eins annarstaðar ef þannig fer,“ segir Alfreð og bætir við að fari svo að samningur hans verði ekki endurnýjaður hafi hann hug á að halda áfram þjálfun einhvers staðar annars staðar.
Er að vaxa fiskur um hrygg
Alfreð segir ljóst að EM 2026 verði erfitt eins og önnur stórmót. Þýska liðinu er hins vegar jafnt og þetta að vaxa fiskur um hrygg.
„Við vitum öll að þetta mót verður mjög erfitt. En hugsunin um EM heldur ekkert fyrir mér vöku. Markmið okkar eru óbreytt,“ segir Alfreð og undirstrikar að markið sé sett á undanúrslit.
Þjóðverjar verða í riðli með nágrönnum sínum, Austurríki, og Serbíu og Spáni. Í milliriðlakeppninni bíða væntanlega Frakkar, Danir, Norðmenn og Portúgalar.
Megum ekki tapa leik
„Mótherjarnir í riðlakeppninni verða erfiðir, en stóra málið er milliriðillinn. Ef maður vill komast í undanúrslit, eins og við viljum, má alls ekki tapa stigi í riðlinum. Tvö töp geta þýtt að sæti í undanúrslit renni okkur í greipar. Þess vegna er fyrsta markmið okkar að leggja allt í sölurnar til að vinna riðilinn og fara áfram með tvö stig,“ segir Alfreð ákveðinn.
Meiri breidd en áður
„Ég treysti liðinu. Það er mjög gott og getur spilað frábært mót. Við höfum meiri breidd en oft áður. Franz Semper og Renars Uscins eru í betra formi en fyrir ári síðan. Auk þess höfum við með Miro Schluroff, rétthentan leikmann, sem getur leyst það verkefni. Við erum með mjög ungt lið, en við höfum haldið meirihlutanum saman í þrjú ár og höfum öðlast sífellt meiri reynslu.
Hlakkar til mótsins
Þess vegna held ég að við getum spilað mjög gott mót. Við eigum að geta staðist hvaða liði sem er snúning. Ég er bjartsýnn og hlakka til þessa móts með strákunum, vitandi að það verður mjög erfitt. Liðið er komið svo langt að það getur líka ráðið við svona aðstæður.“
Þýska landsliðið leikur tvo vináttuleiki við Króatíu fyrir EM en Króatar, undir stjórn Dags Sigurðarsonar, eru silfurlið frá HM í upphafi þessa árs.
Meðal árangur er 3. sæti
„Markmiðið er undanúrslit. Meðalárangur okkar síðustu fjögur ár, það vita ekki margir, er þriðja sætið á eftir Svíþjóð og Danmörku. Það er ekki svo slæmt með svona ungt lið. Auðvitað vona ég að við getum haldið áfram að festa okkur í sessi þar og einnig veitt Danmörku keppni.
En það er undir okkur sjálfum komið, undir liðinu sjálfu. Þegar ég sé karakterana sem koma meira og meira í ljós, sem hafa einnig tekið að sér leiðtogahlutverk í félagsliðum sínum, gerir það mig mjög stoltan,“ segir Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalands sem ætlar að verja áramótunum á Íslandi með börnum sínum og barbörnum.
Leyfi þeim að hvíla sig
Fyrsta æfing þýska landsliðsins verður sunnudaginn 4. janúar.
Leikmennirnir leika með félagsliðum sínum á milli jóla og nýárs. „Það þjónar engum tilgangi fyrir mig að byrja undirbúninginn of snemma. Við látum leikmennina hvíla sig aðeins lengur í þetta skiptið. Auk þess erum við betur samspilaðir en árin á undan,“ segir Alfreð Gíslason.




