„Allir sigrar eru sætir en þessi var sætari af því að leikurinn var stál í stál frá upphafi,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla í samtali við handbolta.is eftir sigurinn á Ungverjum, 24:23, í lokaumferð riðlakeppni Evrópumótsins í Kristianstad í Svíþjóð í kvöld.
„Maður skynjaði það frá upphafi að leikurinn færi í þessa átt þótt margt væri einnig skrautlegt. Framan af fannst við láta margt fara of mikið í skapið á okkur, það sló okkur út af laginu. Ég fór vel yfir málin í hálfleik. Hins vegar er erfitt að eiga í jöfnum leikjum þegar mikið er í húfi.
Við héldum varnarlega þrátt fyrir mikil skakkaföll auk þess sem Viktor var frábær fyrir aftan vörnina,“ sagði Snorri Steinn sem gat ekki leynt gleði sinni með sigurinn, sem er eðlilegt. Tvö stig í milliriðil er afar mikilvægt fyrir framhaldið.
Verðum að leika betur
„Við náðum markmiðum okkar og förum með stigin tvö í milliriðil. Við erum á góðum stað en verðum aðeins að halda áfram að einbeita okkur að komandi leikjum. Erfiðar þjóðir bíða okkar í milliriðli. Við verðum að halda vel á spilunum og leika betur en í dag til þess að ná í stig í milliriðli,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla.
EM karla 2026 – milliriðlar – úrslit, staðan, leiktímar


