Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalands í handknattleik safnar ekki kröftum fyrir átökin á HM karla í næsta mánuði með því að dvelja á Akureyri yfir jólin og snæða hangikjöt eins og hann hefur oft gert í gegnum tíðina. Í samtali við Deutschen Presse-Agentur segist Alfreð vera í skíðaferð á Austurríki yfir jólin. Hann hafi endurnýjað kynni sín af skíðum fyrir tveimur árum eftir 49 ára hlé.
„Ég stundaði skíðin fram til 14 ára aldurs þegar handboltinn tók við,“ segir Alfreð við Deutschen Presse-Agentur og bætir við að margt hafi breyst í skíðaíþróttinni á nærri hálfri öld eins og matarræðinu yfir jólin. Ekki verði t.d. hangikjöt á boðstólum í Austurríki.
Engin tilviljun
Alfreð gerir sér vonir um að þýska landsliðið haldi uppteknum hætti á heimsmeistaramótinu frá Ólympíuleikunum í sumar þegar það lék til úrslita um gullverðlaun. Að mati Alfreðs verða Danir, Frakkar og Svíar áfram í hóp allra fremstu liða á HM eins og á undanförnum stórmótum.
„Við verðum að sýna fram á að árangur okkar að undanförnu er engin tilviljun,“ segir Alfreð en auk silfurverðlauna frá Ólympíuleikunum þá lék þýska liðið um bronsverðlaun á EM á heimavelli í lok janúar. Viðureignin tapaðist og þýska liðið hafnaði í fjórða sæti.
Ekki má vanmeta Ísland
Danir, Frakkar og Svíar verða ekki einu landsliðin sem þýska liðið verður að kljást við um efstu sætin á EM. Króatar, Spánverjar og Slóvenar hafa á að skipa afar öflugum landsliðum sem eru til alls vís. „Ísland hefur einnig afar sterkan hóp sem enginn skal vanmeta,“ segir Alfreð sem að vanda hefur trú á íslenska landsliðinu.
Höfum sýnt hvers við erum megnugir
„Það verður skiljanlega pressa á okkur eftir árangurinn á EM og Ólympíuleikunum. Eftir þessi mót er öllum ljóst hvers við erum megnugir. Strákarnir verða að búa sig undir það,“ segir Alfreð um þýska landsliðið sem hann hefur stýrt á fimm stórmótum á nærri fimm árum.
Þýska landsliðið verður í A-riðli sem leikur í Herning ásamt landsliðum Póllands, Sviss og Tékklands. Fyrsti leikurinn verður við pólska landsliðið 15. janúar.