Landslið Íslands og Svíþjóðar hafa mæst fimm sinnum á Evrópumótinu í handknattleik karla. Ísland hefur einu sinni unnið, 26:24, í Split í Króatíu í janúar 2018 þegar lið þjóðanna mættust í upphafsleik mótsins. Sagan er þar með ekki á bandi Íslands fyrir viðureign þjóðanna í milliriðlakeppni EM í Malmö Arena klukkan 17 í dag.
Svíar hafa unnið fjórar viðureignir, þar af tvisvar í leikjum í Svíþjóð. Fyrri viðureignin var í Globen í Stokkhólmi á EM 2002 í undanúrslitum keppninnar og lauk með 11 marka sigri Svía, 33:22.
Síðast mættust Svíar og Íslendingar á EM í Svíþjóð 2020. Sænska liðið vann örugglega, 34:25, í Malmö Arena. Kristján Andrésson var þá landsliðsþjálfari Svía. Þetta var síðasti leikur Íslands á mótinu.
Úrslit fyrri leikja Íslands og Svíþjóðar í lokakeppni EM karla:
2020: Ísland – Svíþjóð 25:34.
2018: Ísland – Svíþjóð 26:24.
2008: Ísland – Svíþjóð 19:24.
2002: Ísland – Svíþjóð 22:33 (undanúrslit).
2000: Ísland – Svíþjóð 23:31.
Sjá einnig:
Einn íslenskur sigur í sjö leikjum við Króata
Þrír sigrar í átta leikjum við Ungverja á EM



