Fremsti handknattleiksmaður Noregs, Sander Sagosen, leikur ekki fleiri leiki á heimsmeistaramótinu í handknattleik. Hann meiddist í sigurleik Noregs á Spáni, 25:24, í Bærum í gærkvöld. Jonas Wille landsliðsþjálfari Noregs staðfesti í dag að ekki væri reiknað með frekari þátttöku Sagosen á mótinu. Hann mun þó áfram vera hluti af hópnum, eftir því sem fram kemur hjá Wille í frétt VG.
Eftir því sem fram kemur hjá norska handknattleikssambandinu þá tognaði Sagosen á kálfa síðla leiks.
Eftir vonbrigði með frammistöðuna á mótinu þá vann norska liðið sterkt lið Spánar í gærkvöld og náði í tvö fyrstu stig sín í milliriðli. Meiðsli Sagosen vörpuðu skugga á sigurinn enda um að ræða fremsta handknattleiksmann Noregs og lykilmann í landsliðinu til margra ára þótt mörgum þyki hann ekki hafa staðið undir væntingum á mótinu fremur en liðið í heild, þangað til í gærkvöld.
Með sigrinum í gær þá á Noregur veika von um sæti í átta liða úrslitum HM. Til þess verða Norðmenn að vinna tvo síðustu leiki sína og treysta um leið á hagstæð úrslit í öðrum leikjum.
Portúgal er efst í milliriðli þrjú með fimm stig eftir jafntefli við Svíþjóð í háspennuleik í gærkvöld, 37:37.
Brasilíumenn lögðu Chilebúa, 28:24, í þriðja leik milliriðilsins í gær.