Handknattleiksmaðurinn Hamza Kablouti fór af landi brott í gær og er ekki væntanlegur til baka á nýju ári. Samningi hans við Aftureldingu hefur verið rift, eftir því sem næst verður komist.
Heimildir handbolta.is herma að Kablouti hafi náð samkomulagi við félagslið Doha í Katar um samning til fjögurra ára og eigi þess jafnvel kost að taka sæti í landsliði Katarbúa standi hann undir væntingum.
Kablouti, sem er af frönsku og túnísku bergi brotinn, kom til Aftureldingar í ágúst en náði sér aldrei á flug í Mosfellsbæ og skoraði til að mynda aðeins 12 mörk í sjö leikjum í Olísdeildinni.
Í nóvember var Kablouti leigður til Víkinga hvar hann náði tveimur heilum leikjum og frískað nokkuð upp á sóknarleik þeirra. Í þriðja leiknum með Víkingi meiddist Kablouti eftir um stundarfjórðung og tók þar af leiðandi ekki þátt í viðureignum Víkinga við ÍBV og KA áður en keppni lauk fyrir jólaleyfi.