ÍBV vann öruggan sigur á Selfossi, 31:22, í upphafsleik 4. umferðar Olísdeildar kvenna í handknattleik í Vestmannaeyjum í kvöld. Staðan var 16:12 fyrir ÍBV þegar fyrri hálfleik var lokið. Þetta var þriðji sigur Eyjaliðsins í fjórum viðureignum og situr það í öðru sæti deildarinnar með sex stig, eins og KA/Þór. Akureyrarliðið á leik inni gegn Haukum á heimavelli á laugardag.
Staða Selfoss-liðsins er áfram erfið í neðsta sæti án stiga. Framundan er viðureign við AEK í Sethöllinni á sunnudaginn í Evrópubikarkeppninni.
ÍBV-liðið hafði yfirhöndina frá upphafi til enda í Eyjum. Sandra Erlingsdóttir lék einkar vel. Hún skoraði 10 mörk og var með 11 sköpuð færi, þar af átta stoðsendingar. Auk Söndru þá reyndist Amalia Frøland markvörður leikmönnum Selfoss óþægur ljár í þúfu. Frøland varði 16 skot, 50%, án þess þó að vera allan leikinn í markinu enda sigurinn löngu kominn í höfn áður en leiktíminn var úti. ÍBV náði mest 12 marka forskoti níu mínútum fyrir leikslok, 30:18.
Mörk ÍBV: Sandra Erlingsdóttir 10/1, Ásta Björt Júlíusdóttir 6, Ásdís Halla Hjarðar 3, Birna Berg Haraldsdóttir 2, Amelía Dís Einarsdóttir 2, Birna Dís Sigurðardóttir 2, Birna María Unnarsdóttir 2, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 2, Britney Emilie Florianne Cots 1, Agnes Lilja Styrmisdóttir 1.
Varin skot: Amalia Frøland 16, 50% – Ólöf Maren Bjarnadóttir 3, 42,9%.
Mörk Selfoss: Hulda Dís Þrastardóttir 7/5, Mia Kristin Syverud 6, Sara Dröfn Rikharðsdóttir 3, Hulda Hrönn Bragadóttir 2, Inga Sól Björnsdóttir 1, Sylvía Bjarnadóttir 1, Katla Björg Ómarsdóttir 1, Ída Bjarklind Magnúsdóttir 1.
Varin skot: Ágústa Tanja Jóhannsdóttir 9, 23,1% – Sara Xiao Reykdal 4, 80%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.