- Auglýsing -
Sandra Erlingsdóttir skoraði sigurmark EH Aalborg í dag þegar liðið vann DHG í dönsku 1. deildinni í handknattleik á heimavelli, 31:30. Sigurmarkið skoraði Sandra þegar 18 sekúndur voru til leiksloka. Leikmenn DHG reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin á síðustu sekúndunum en tókst ekki.
Markið dýrmæta var eitt af fjórum mörkum Söndru í leiknum, tvö þeirra skoraði hún úr vítaköstum. EH Aalborg var marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:16.
EH Aalborg var tveimur mörkum undir þegar þrjár mínútur voru til leiksloka en af harðfylgi tókst þeim að skora tvö síðustu mörkin og tryggja sér stigin tvö sem eru mikilvæg í toppbaráttu deildarinnar.
EH Aalborg komst í efsta sæti deildarinnar með sigrinum. Liðið hefur 24 stig eftir 16 leiki. Ringköbing er í öðru sæti með 23 stig eftir 14 leiki og Ringsted er í þriðja sæti með 23 stig að loknum 15 leikjum. SönderjyskE og Hadsten eru þar á eftir með 22 og 21 stig eftir 16 leiki hvort lið.
- Auglýsing -