Sandra Erlingsdóttir markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu sem fram fór í Danmörku og Noregi undir lok síðasta árs verður ekki með landsliðinu í næstu leikjum. Sandra sagði frá því á dögunum að hún væri ólétt og eigi von á barni í ágúst með unnusta sínum Daníel Þór Ingasyni handknattleiksmanni hjá þýska liðinu Balingen-Weilstetten.
Sandra leikur með TuS Metzingen sem einnig á sæti í efstu deild þýska handboltans. Hún er komin í leyfi hjá TuS Metzingen og hefur ekki tekið þátt í síðustu leikjum. Sandra mætir ekki aftur út á leikvöllinn til keppni fyrr en á næsta keppnistímabili.
Sandra og Daníel Þór eiga ekki barn fyrir.
Mánuður í leiki við Svía
Framundan eru fjórir leikir hjá kvennalandsliðinu í undankeppni Evrópumótsins sem haldið verið í desember í Austurríki, Ungverjalandi og Sviss. Í lok febrúar og í byrjun mars mætir íslenska landsliðið sænska landsliðinu í tvígang, annars vegar í hér á landi 28. febrúar og hinsvegar laugardaginn 2. mars í Karlskrona. Vikunni eftir páska, 3. og 7. apríl verða tveir síðustu leikir undankeppninni, gegn Lúxemborg ytra og Færeyingum á Ásvöllum sunnudaginn 7. apríl.
Stendur vel að vígi
Íslenska landsliðið stendur vel að vígi með fjögur stig eftir tvær fyrstu umferðirnar sem fram fóru í október. Svíar, sem höfnuðu í fjórða sæti á HM í síðasta mánuði, hafa einnig unnið tvær fyrstu viðureignir sínar í 7. riðli undankeppni EM.
Af gefnu tilefni skal tekið fram að handbolti.is fékk góðfúslegt leyfi hjá Söndru fyrir að sagt væri frá að hún væri barnshafandi. Áður hafði Sandra greint frá gleðitíðindunum á samfélagsmiðlum.