FH-ingar komust upp að hlið Vals í öðru til þriðja sæti Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld með afar sannfærandi sigri á Stjörnunni, 33:26, í TM-höllinni í Garðabæ. Leikurinn var liður í áttundu umferð deildarinnar. Ef undan eru skildar fyrstu 10 mínútur leiksins þá réðu FH-ingar lögum og lofum í leiknum. Þeir voru fjórum mörkum yfir, 15:11, í hálfleik eftir að Stjörnumenn höfðu skoraði tvö síðustu mörk hálfleiksins.
Stjarnan er eftir sem áður með 10 stig eftir sjö leiki eins og ÍBV og Afturelding í fjórða til sjötta sæti. Afturelding hefur leikið einum leik fleira.
FH-ingar léku afar afar vel í leiknum. Létt var yfir sóknarleiknum og varnarleikurinn afar traustur. Phil Döhler markvörður meiddist á fingri snemma leiks og tók Svavar Ingi Sigmundsson við og varði vel. Birgir Örn Birgisson og Leonharð Þorgeir Harðarsson voru einstaklega góðir í leiknum. Sá fyrrnefndi lék ekki aðeins vel í sókninni heldur einnig í vörn.
Stjörnumenn voru án Tandra Más Konráðssonar sem verið hefur úr leik í þrjár vikur. Gunnar Steinn Jónsson meiddist í fyrri hálfleik í kvöld og kom ekkert við sögu eftir það. Þá heltist Björgvin Hólmgeirsson úr lestinni í síðari hálfleik sem varð ekki til að bæta úr skák. Pétur Árni Hauksson kom inn í hópinn í fyrsta sinn á leiktíðinni.
Mörk Stjörnunnar: Leó Snær Pétursson 6/2, Sverrir Eyjólfsson 4, Dagur Gautason 4, Hafþór Már Vignisson 4, Starri Friðriksson 3, Björgvin Þór Hólmgeirsson 2, Hjálmtýr Alfreðsson 1, Jón Ásgeir Eyjólfson 1, Hrannar Bragi Eyjólfsson 1.
Varin skot: Arnór Freyr Stefánsson 12, 32,4% – Sigurður Dan Óskarsson 3, 33,3%.
Mörk FH: Birgir Már Birgisson 7, Ágúst Birgisson 5, Leonharð Þorgeir Harðarson 5, Egill Margnússon 4, Ásbjörn Friðriksson 3/1, Einar Örn Sindrason 3/1, Hlynur Jóhannsson 2, Svavar Ingi Sigmundsson 2, Jakob Martin Ásgeirsson 1, Atli Steinn Arnarson 1.
Varin skot: Svavar Ingi Sigmudsson 8, 26,7% – Phil Döhler 4, 50%.
Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.
Stöðuna í Olísdeild karla er að finna hér.