Haukar unnu öruggan sigur á slökum KA-mönnum á Ásvöllum í kvöld í 1. umferð Olísdeildar karla í handknattleik, 27:21. Jafnt var að loknum fyrri hálfleik, 11:11.
KA skoraði tvö fyrstu mörkin í síðari hálfleik. Eftir það voru nánast sögulok hjá Akureyrarliðinu. Haukar skoruðu sex mörk í röð. Þar með má segja að aldrei hafi leiki vafi á um hvort liðið færi með sigur út býtum. KA-menn misstu móðinn, sóknarleikur var hálf stjórnlaus og eftirleikurinn auðveldur fyrir leikmenn Hauka.
Fyrri hálfleikur var fremur slakur af beggja hálfu. Haukar virtust yfirspenntir og voru úti á þekju, jafnt í vörn sem sókn fyrstu 10 til 15 mínúturnar. KA-menn nýttu sé það og náðu ágætu forskoti. Þeir lifðu á að gera færri mistök en heimamenn. KA var fimm mörkum yfir eftir 13 mínútur, 9:4. Tíu mínútum síðar var staðan jöfn, 10:10.
Eins og fyrr segir þá skoraði KA tvö fyrstu mörk síðari hálfleiks. Eftir það sneru Haukar taflinu við og litu ekki um öxl eftir það.
Andri Már Rúnarsson lék sinn fyrsta leik fyrir Hauka. Hann og Guðmundur Bragi Ástþórsson ná vel saman og getur verið gaman að fylgjast með þeim eftir því sem tímabilinu vindur fram. Geir Guðmundsson átti einnig góða spretti. Nýr markvörður Hauka, Matas Pranckevicius, lofar góðu. Össur Haraldsson lék lengst af í hægra horni í fjarveru Stefáns Rafns Sigurmannsson sem kenndi sér meins í öðru hné og gat ekki verið með.
Einar Rafn Eiðsson var allt í öllu í sóknarleik KA. Því miður var sóknarleikur KA-liðsins stjórnlítill og alltof mistækur, jafnvel einföldustu hlutir vöfðust fyrir leikmönnum sem eru vísir til þess að sækja í sig veðrið með fleiri leikjum. Markverðir KA, Bruno Bernat og Nikolas Satchwell voru bestu menn liðsins.
Mörk Hauka: Andri Már Rúnarsson 5, Geir Guðmundsson 4, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 4, Adam Haukur Baumruk 4, Heimir Óli Heimisson 3, Guðmundur Bragi Ástþórsson 2, Össur Haraldsson 2, Birkir Snær Steinsson 1, Andri Fannar Elísson 1, Ólafur Ægir Ólafsson 1.
Varin skot: Matas Pranckevicius 12, 36,4%.
Mörk KA: Einar Rafn Eiðsson 7, Skarphéðinn Ívar Einarsson 5, Einar Birgir Stefánsson 4, Gauti Gunnarsson 2, Allan Norðberg 2, Arnór Ísak Haddsson 1.
Varin skot: Bruno Bernat 8, 50% – Nicholas Satchwell 7, 26,9%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.