Keppnistímabilið í norsku B-deildinni í handknattleik kvenna hófst í dag þegar Íslendingalið, Volda, sótti tvö stig í greipar Nordstrand í Ósló, lokatölur 24:20. Sara Dögg Hjaltadóttir, fyrrverandi leikmaður Fjölnis, var allt í öllu hjá Volda í leiknum.
Sara Dögg skoraði fimm mörk í níu skotum og var markahæst ásamt tveimur öðru konum. Volda var tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 13:11.
Halldór Stefán Haraldsson, fyrrverandi þjálfari Fylkis, er nú á sínu fjórða keppnistímabili sem þjálfari Volda. Hilmar Guðlaugsson, sem eitt sinn þjálfaði m.a. HK og Selfoss, tók við sem aðstoðarþjálfari Volda í sumar, eftir að hafa gert það gott með kvennalið Förde.
Sara Dögg, sem stendur á tvítugu, kom til Volda fyrir síðustu leiktíð. Hún var þá nýlega stigin upp úr krossbandasliti frá leiktíðinni 2018/2019 en þá var hún í herbúðum Kongsvinger samhliða námi í Noregi. „Sara er núna komin í toppform eftir að hafa komið meidd til okkar fyrir rúmu ári,“ sagði Halldór Stefán í nútíma símskeyti til handbolta.is.