„Þessi leikur skipti miklu máli í keppninni um áttunda sæti og það er sárt að tapa honum,“ sagði Halldór Stefán Haraldsson þjálfari karlaliðs KA eftir tap fyrir HK í Kórnum í kvöld í Olísdeild karla í uppgjöri liðanna í áttunda og níunda sæti, 33:29. HK hefur þar með fjögurra stiga forskot á KA þegar fjórar umferðir eru eftir.
HK byrjaði leikinn betur og gaf aldrei eftir forskot sitt. Ekki síst var upphafskafli leiksins slappur hjá Akureyrarliðinu. Halldór Stefán tóku undir þá skoðun og sagði sína menn hafa verið mjög mikla klaufa framan af. „Við náðum ekki að fylgja okkar plani eftir og HK var með yfirhöndina. Ég er mjög svekktur með fyrstu 20 mínúturnar,“ sagði Halldór Stefán.
Upphafskaflinn í síðari hálfleik var sá besti hjá KA í leiknum. Þá tókst liðinu að minnka muninn í tvö mörk. Nær komst KA ekki.
Vonsvikin með dómgæsluna
„Svo var okkur hent út af í tvær mínútur í annarri hverri vörn. Þá var orðið erfitt ástand hjá okkur,“ sagði Halldór Stefán sem var vonsvikinn með dómgæsluna. Rabbaði hann m.a. við eftirlitsmanninn í góða stund eftir leikinn.
„Ég veit að Magnús [Kári Jónsson] og Kári [Garðarsson] gera alltaf sitt besta en í þessum leik voru brottrekstrarnir á okkur réttit en mér fannst vanta fjóra til fimm brottrekstra hinum meginn á keimlík brot. Það er dýrt í svona leik og gerði verkefnið erfiðara,“ sagði Halldór Stefán Haraldsson þjálfari KA.
Lengra viðtal við Halldór Stefán er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.