Benedikt Gunnar Óskarsson bætist við íslenska landsliðshópinn sem mætir Grikkjum í undankeppni Evrópumóts karla í handknattleik í Chalkida á miðvikudagskvöld. Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari sagði í samtali við handbolta.is þegar hann valdi hópinn fyrir leikina við Grikki að hann ætlaði að bæta við leikmanni í hópinn áður en farið verður til Grikklands.
„Við þurfum að minnsta kosti að fylla skýrsluna þegar á hólminn verður komið,“ sagði Snorri Steinn í léttum dúr í samtali við handbolta.is á mánudaginn, eins og sjá og heyra má hér.
Sjá einnig: Reiknar með að fjölga Grikklandsförunum
Ekki óvarlegt
Sautján leikmenn verða þar með í landsliðshópnum sem er ekki óvarlegt í ljósi allra þeirra meiðsla sem herjað hafa á landsliðsmenn síðustu vikur og mánuði. Síðast í gær varð Viktor Gísli Hallgrímsson markvörður að draga sig út úr hópnum. Reyndar var ljóst að brugðið gæti til beggja vona með hann.
Vonir stóðu til þess að Gísli Þorgeir Kristjánsson yrði klár í slaginn og gætir orðið sá sautjándi í hópnum. Annað hefur komið á daginn. Gísli Þorgeir hefur ekki jafnað sig af iljarfellsbólgu og var ekki með Magdeburg gegn Eisenach í gær í þýsku 1. deildinni í handknattleik.
Eftir því sem næst verður komist kemur Benedikt Gunnar, sem leikið hefur þrjár landsleiki, til Chalkida á morgun með bróður sínum, Arnóri Snæ Óskarssyni og Sigvalda Birni Guðjónssyni. Þeir eru samherjar hjá norska meistaraliðinu Kolstad í Þrándheimi.