- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sé fram á að hafa nóg að gera næstu mánuði

Erlingur Birgir Richardsson nýráðinn landsliðsþjálfari Sádi Arabíu. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Ég skrifaði undir samning við hálfum öðrum mánuði en það er fyrst núna sem Sádarnir segja frá þessu. Þeir eru ekkert að flýta sér,“ sagði Erlingur Richardsson léttur í bragði í samtali við handbolta.is eftir að opniberað var í gær að hann hafi verið ráðinn landsliðsþjálfari karlalandsliðs Sádi Arabíu í handknattleik. Eyjamaðurinn er þegar tekinn til starfa og var nýkominn inn úr dyrunum frá því að fylgjast með handboltaleik á Asíumóti félagsliða þegar handbolti.is sló á þráðinn til koungsríkisins víðfeðma við Arabíuflóann.

Mikið rót á þjálfurum

Erlingur samdi til eins árs um þjálfun landsliðsins en talsvert los hefur verið á þjálfun landsliðsins undanfarin ár. Mun sú staða einnig hafa verið uppi hjá félagsliðum landsins. Aðeins einn þjálfari hélt starfi sínu hjá félagsliði eftir síðustu leiktíð. Önnur félög skiptu um mann í brúnni.

Jan Pytlick hætti þjálfun landsliðsins eftir ár eftir HM í janúar. Zoran Kastratović tók þá við en var aðeins ráðinn tímabundið.

„Ég var búinn að semja við Sádana þegar Kastratović stýrði landsliðinu á móti þangað til ég tók formlega við. Kastratović hljóp aðeins í skarðið tímabundið,“ sagði Erlingur.

Hollenskur samstarfsmaður

Erlingur fékk Hollendinginn Edwin Keppers til samstarfs við sig við vinnuna í Sádi Arabíu en saman unnu þeir um árabil þegar Erlingur þjálfaði hollenska landsliðið.

Asíuleikar í september

Erlingur er þegar tekinn til starfa og farinn að huga að undirbúningi fyrir Asíuleikana sem hefjast í Hangzhou í Kína 23. september. Þangað senda Sádar vaskan hóp íþróttamanna, þar á meðal karlalandsliðið í handknattleik.

Tíu dögum eftir að Asíuleikunum lýkur tekur við forkeppni fyrir Ólympíuleikana sem haldin verður í Doha í Katar. Í janúar verður síðan komið að forkeppni heimsmeistaramótsins 2025, Asíuhluta.

Erlingur Birgir Richardsson er fimmtugur Eyjamaður. Hann stýrði karlaliði ÍBV frá 2018 þangað til í vor þegar liðið varð Íslandsmeistari.  Einnig hefur hann þjálfað karlalandslið Hollands (2017 - 2022), þýska liðið Füchse Berlín, West Wien í Austurríki,  karlalið HK og kvennaliðum ÍBV og HK auk þess að hafa áður þjálfað karlalið ÍBV nokkrum árum áður en hann tók við því sumarið 2018. Erlingur var í þjálfarateymi Arons Kristjánssonar á árunum 2012 til 2016. Erlingur lék nokkra A-landsleiki og var m.a. í A-landsliðinu á HM í Frakklandi 2001.
Eiginkona Erlings er Vigdís Sigurðardóttir fyrrverandi landsliðsmarkvörður í handknattleik. Þau eiga þrjú börn, Söndru, Elmar og Andra, sem öll eru á kafi í íþróttum. 

Nóg að gera næstu mánuði

„Þessa dagana stendur yfir Arabíumót félagsliða þar sem keppt er um síðustu farseðlana á heimsmeistaramót félagsliða sem haldið verður í Sádi Arabíu í nóvember. Ég er að fylgjast með liðum frá Sádí sem taka þátt í mótinu. Síðan taka við æfingar með landsliðinu áður en hvert mótið rekur annað. Ég sé ekki fram á annað en að hafa nóg að gera næstu mánuði,“ sagði Erlingur sem er ekki væntanlegur heim til Eyja fyrr en að lokinni forkeppni Ólympíuleikanna þegar komið verður fram í nóvember.

Yngja á upp í landsliðinu

„Markmiðið er að yngja aðeins upp í liðinu. Komið er að kynslóðaskiptum. Þótt samningurinn sé aðeins til árs þá vilja þeir meina að ég eigi að vinna að uppbyggingu og þá getur komið til þess að ég verði lengur. Við sjáum til,“ sagði Erlingur sem segir ljóst að talsverður áhugi sé fyrir handknattleik í Sádi Arabíu, ekki síst á ákveðnu svæði í landinu. Hann hafi til að mynda verið í gær á meðal nærri 3.000 áhorfenda á viðureign liða frá Sádi Arabíu og Kúveit.

Áhuginn er á austurströndinni

„Handboltinn er mjög útbreiddur á austurströnd Sádi Arabíu. Á þessu svæði eru nær öll handboltalið landsins. Af samtölum mínum við menn hér úti hefur komið fram að frá 1980 hafi íþróttin verið mjög vinsæl. Hinsvegar hefur vantað stöðugleika og stefnu. Mikið rót hefur verið á þjálfaramálum félaganna og lítið unnið með börnum og unglingum. Peningarnir eru settir í meistaraflokksliðin til þess að fá þá sem fyrst til baka. Þetta er á meðal þess sem ég þarf að kynna mér,“ sagði Erlingur og bætti við.

„Þetta er allt saman nýtt og spennandi að fást við í öðrum menningarheimi,“ sagði Erlingur Richardsson nýráðinn landsliðsþjálfari Sádi Arabíu í handknattleik.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -