Arnór Viðarsson leikmaður ÍBV gengur til liðs við danska úrvalsdeildarliðið Fredericia HK í sumar. Frá þessu sagði Séffinn / Zcheffenn / Experten / The specialist @arnardadi á X í gærmorgun, mánudag, samkvæmt áreiðanlegum heimildum.
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Sérfræðingsins mun Arnór Viðarsson leikmaður ÍBV ganga til liðs við danska félagið Fredericia og leika þar undir stjórn Gumma Gumm. næsta sumar. #Handkastið pic.twitter.com/GZQfVPrs0l
— Séffinn / Zcheffenn / Experten / The specialist (@arnardadi) February 12, 2024
Séffinn / Zcheffenn / Experten / The specialist @arnardadi hefur ekki verið þekktur fyrir að skjóta yfir markið.
Guðmundur Þórður Guðmundsson er þjálfari Fredericia HK en liðið situr í öðru sæti dönsku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir. Einar Þorsteinn Ólafsson landsliðsmaður leikur með Fredericia HK.
Arnór mun einnig hafa rætt við forráðamenn Vals um að ganga til liðs við félagið í sumar en þegar öllu var á botninn hvolft togaði Fredericia HK frekar í Eyjamanninn.
Arnór hefur verið með öflugri leikmönnum Íslandsmeistaraliðsins ÍBV, jafnt í vörn sem sókn, undanfarið ár og var m.a. verðlaunaður með því að vera á dögunum valinn íþróttamaður Vestmannaeyja fyrir síðasta ár. Arnór lék með U21 landsliði Íslands sem vann bronsverðlaun á HM á síðasta sumri.
Fari Arnór utan í atvinnumennsku fetar hann um leið í fótspor bróður síns, Elliða Snæs, sem hefur leikið með Gummersbach frá haustinu 2020 við afar góðan orðstír.