„Bæjaryfirvöld verða að fara taka alvarlega þá bláköldu staðreynd að það bráðvantar eitt stykki íþróttahús á félagssvæði Þórs. Það myndi leysa allan vanda boltaíþrótta að vetrarlagi,“ skrifað Árni Rúnar Jóhannsson, formaður handknattleiksdeildar Þór á Akureyri í aðsendri grein sem birtist á vef Akureyri.net í morgun.
Árni Rúnar segir handknattleiksdeild Þórs nánast vera á hrakhólum og gildir þar einu hvort um yngri flokka eða meistaraflokka sé að ræða. Deildin deilir íþróttahöllinni á Akureyri með mörgum og ekki aðeins íþróttaliðum.
Árni Rúnar segir í grein sinni að eftir að hann las grein Jónatans Þórs Magnússonar þjálfara KA á dögunum sé ljóst að aðstæður handknattleiksdeilda beggja félaga séu að flestu leyti svipaðar.
„Það er ekkert leyndarmál að bæjarfulltrúar hafa komið að máli við hæstráðendur hjá Þór og hreinlega beðið þá um að leggja niður handbolta, hætta með handbolta vegna aðstöðuleysis. Gert grín að ráðningu þjálfara handknattleiksdeildarinnar opinberlega. Hef ég heyrt margt skrautlegt um ævina en þetta fer á toppinn,“ skrifar Árni Rúnar í grein sinni á Akureyri.net. og bætir við?
„Hvers vegna ætti íþróttafélag að leggja niður heila deild þar sem þeir sem stjórna bænum, eitt kjörtímabil í senn, sjá ekki lausnir heldur vandamál?,“ skrifar Árni Rúnar Jóhannsson, formaður handknattleiksdeild Þór á Akureyri.
Grein Árna Rúnars í heild má nálgast hér.