Arnar Daði Arnarsson handknattleiksþjálfari, og ekki síst handknattleikssérfræðingur, segir frá því á Twitter í morgun að sögusagnir hermi að Janus Daði Smárason landsliðsmaður í handknattleik sé orðaður við Evrópumeistara SC Magdeburg frá Þýskalandi.
Janus Daði Smárason er orðaður við Magdeburg. Samkvæmt sögusögnum hefur Janus Daði lítinn húmor fyrir því að taka á sig launalækkun hjá Kolstad en félagið er í miklum peningavandræðum. Janus Daði er enn að jafna sig af þráðlátum axlarmeiðslum. Einar. #Handkastið pic.twitter.com/3t6PfLqGOF
— Arnar Daði (@arnardadi) July 16, 2023
Basl á meisturunum
Janus Daði gekk til liðs við Kolstad í Noregi fyrir ári og varð þrefaldur meistari með liðinu í vor. Eins og fram hefur komið í fréttum er Kolstad í fjárhagskröggum. Félagið hefur m.a. óskað eftir að leikmenn liðsins taki á sig 20 -30% lækkun launa. Þar á ofan var fullyrt í vikunni í blaðinu Nidaros að leikmenn Kolstad eigi inni samningsbundnar launauppbætur vegna meistaratitlanna þriggja.
Janus Daði fór á kostum með Kolstad á leiktíðinni og var m.a. valinn í úrvalslið norsku úrvalsdeildarinnar í mótslok í vor.
Vegna axlarmeiðsla Gísla Þorgeirs Kristjánssonar er ekki útilokað að SC Magdeburg leiti að manni til þess að hlaupa í skarðið fyrir Hafnfirðinginn sem verður frá keppni fram yfir næstu áramót.
Janus Daði getur smellpassað í hlutverkið. Hann þekkir vel til í þýskum handknattleik eftir að hafa leikið með Göppingen frá 2020 til 2022.