Handknattleikssamband Norður Makedóníu verður sektað vegna óspekta stuðningsmanna karlalandsliðsins á viðureign Hollands og Norður Makedóníu í annarri umferð riðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik í Varaždin í Króatíu á föstudaginn. Smáhlutum var kastað í og að leikmönnum hollenska landsliðsins auk þessm hrækt var í áttina að þjálfara Hollendinga, dómurum og eftirlitsmönnum. Endirinn varð sá að hollenska landsliðið tók á rás út af leikvellinum strax eftir að honum var lokið. Leikmönnum þótti öryggi þeirra væri ógnað.
Hollendingar tóku til fótanna – upp úr sauð í Varaždin
Alþjóða handknattleikssambandið, IHF, sendi frá sér tilkynningu vegna málsins sem á sér vart fordæmi á heimsmeistaramóti karla í handknattleik. IHF krefst þess að spyrnt verði við fótum. Takist það ekki mun það hafa afleiðingar fyrir mótið í heild.
Auk sektar er handknattleikssambandi Norður Maekdóníu gert skýrt að ef ekki tekst að hafa hemil á stuðningsmönnum fara leikir landsliðsins sem eftir eru á HM fram fyrir luktum dyrum. Ekki kemur fram hversu há sektin er.
Í yfirlýsingu IHF kemur einnig fram að mótshaldari, handknattleikssamband Króatíu, bíði einnig sekt. IHF skipar mótshaldara að bæta öryggi og eftirlit á leikjum sem var að mati IHF í skötulíki á fyrrgreindum leik. Fjölga verður starfsmönnum og löggæslufólki til muna og að það fólk verði sjáanlegt. Leitað verður á áhorfendum og bakpokum þeirra.
Einnig ber mótshalda að tryggja að leikmenn, starfsmenn liða og starfsmenn leikja séu öruggir. M.a. með því að skjólveggjum verði komið upp í íþróttahöllinni í Varaždin nærri varamannabekkjum og vinnusvæði eftirlitsfólk og tímavarða.
IHF varar króatíska sambandið við því að ef svipaðar uppákomur eigi sér stað í fleiri leikjum þá verða áhorfendur útilokaðir frá leikjum. Gildir einu hvort sagan endurtaki sig í Varaždin eða á öðrum keppnisstöðum í Króatíu.
Allt var sem betur fer með kyrrum kjörum í dag þegar Norður Makedónía vann Gíneu í lokaumferð D-riðils, 29:20.