Selfyssingarnir Ómar Ingi Magnússon og Teitur Örn Einarsson komu mikið við sögu í kvöld þegar lið þeirra, Magdeburg og Kristianstad, unnu sína leiki í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik. Ómar Ingi skoraði fjögur mörk og átti fimm stoðsendingar þegar Magdeburg vann Nexe í Króatíu, 32:24. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö af mörkum Magdeburg liðsins sem hefur orðið sex stig að loknum fjórum leikjum í C-riðli.
Teitur Örn var atkvæðamikill í öruggum sigri IFK Kristianstad á Presov frá Slóvakíu í 5. umferð B-riðils , 32:25, á heimavelli. Teitur Örn skoraði fimm mörk í níu skotum og átti auk þess sjö stoðsendingar, flestar á Adam Nyfjäll línumann sem skoraði sjö mörk og var markahæstur í sænska liðinu. Teitur Örn og Nyfjäll hafa náð einstaklega vel saman á keppnistímabilinu.
Ólafur Andrés Guðmundsson, fyrirliði Kristianstad, sat á bekknum allan leikinn. Hann glímir við „smá hnjask“ eins og hann kallaði það í skilaboðum til handbolta.is í kvöld.
Mikið álag er á leikmönnum Kristianstad í þessum mánuði. Alls standa tíu leikir fyrir dyrum á 30 dögum, þar af eru fjórir nú á átta dögum.
Á brattann að sækja í Montpellier
Aron Dagur Pálsson og samherjar í Alingsås áttu á brattann að sækja í heimsókn sinni til Montpellier í Frakklandi. Eftir góðan fyrri hálfleik, en aðeins munaði þremur mörkum að honum loknum, 16:13, þá tóku leikmenn Montpellier öll völd á vellinum í þeim seinni. Sigur þeirra var öruggur, 32:21.
Alingsås-liðið er þunnskipað þessa dagana auk þess sem mikið álag er og leikið annan og þriðja hvern dag. Tveir leikmenn liðsins urðu eftir heima smitaðir af kórónuveirunni. Til viðbótar hafa fimm leikmenn liðsins verið á sjúkralista um langt skeið. Einn er reyndar að skríða saman og getur aðeins tekið þátt í varnarleik liðsins.
Aron Dagur skoraði eitt mark í Frakklandi og átti tvær stoðsendingar.
Úrslit kvöldsins og staðan:
A-riðill:
Toulouse – Wisla Plock 25:26 (12:14)
Aon Fivers – Ademar 33:33 (19:20)
Staðan:
Wisla Plock 6(3), Ademar 5(4), Toulouse 4(5), Aon Fivers 3(4), Medvedi 2(2), Metalurg 0(2).
B-riðill:
Füchse Berlin – D.Búkarest 33:29 (15:12)
IFK Kristianstad – Presov 32:25 (14:13)
Sporting – Nimes
Staðan:
F.Berlin 6(3), Kristianstad 6(5), Sporting 4(2), Nimes 2(3), D.Búkares 2(4), Presov 0(3).
C-riðill:
CSKA – Besiktas 32:24 (21:9)
Montpellier – Alingsås 32:21
Nexe – Magdeburg 24:32
Staðan:
Montpellier 6(3), Magdeburg 6(4), CSKA 4(3), Alingsås 4(4), Nexe 2(4), Besiktas 0(4).
D-riðill:
Trimo Trebnje – Pelister 28:24
Staðan:
Rhein-Neckar Löwen 6(3), Kadetten 3(2), Trimo Trebnje 4(2), GOG 2(4), Eurofarm Pelister 1(4), Tatabanya 0(2).