- Auglýsing -
- Auglýsing -

Semur við Magdeburg en bíður eftir símtali frá Kaíró

Hollendingurinn Kay Smits sækir að vörn Svía í landsleik. Hann er á leið til Magdeburg í Þýskalandi. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Meðan að Erlingur Richardsson og leikmenn hollenska landsliðsins í handknattleik bíða eftir fregnum hvort þeir verði kallaðir til þátttöku á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Egyptalandi berast þær fregnir frá Þýskalandi að hollenski landsliðsmaðurinn Kay Smits hafi samið við þýska liðið SC Magdeburg. Smits flytur til Magdeburg svo fljótt sem við verður komið. Gert er ráð fyrir að hann hefji leik með liðinu í febrúar þegar þráðurinn verður tekinn upp í þýsku 1. deildinni.


Smits er örvhentur og 23 ára gamall. Honum er ætlað að hlaupa í skarðið fyrir Svíann Albin Lagergren sem verður lengi frá vegna meiðsla. Smits á að gera gott betur en vera meðan Lagergren nær heilsu því Hollendingurinn hefur skrifað undir samning til ársins 2023. Tveir íslenskir landsliðsmenn leika með Magdeburg um þessar mundir, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon.


Smits var til reynslu hjá Magdeburg í vor en fór heim án samnings í það skiptið. Forsvarsmenn félagsins endurnýjuðu kynnin við Hollendinginn á dögunum þegar Svíinn gekk úr skaftinu.

Brúnin farin að þyngjast


Erlingur var að vonum ánægður fyrir hönd síns manns þegar handbolti.is heyrði honum hljóðið í dag. „Það skiptir máli að reyna að koma þessum strákum að hjá stórum liðum, einnig til að búa til stærri ímynd fyrir karlahandboltann hér í Hollandi,“ sagði Erlingur sem er orðinn langeygur eftir svari, af eða á, hvort hann væri á leið með sveit sína til Egyptalands. „Þetta er orðið ansi þreytt,“ sagði Erlingur við handbolta.is.


Erlingur hætti við heimför í gær en upphaflega stóð til að hann færi til Íslands á mánudaginn. Af því varð ekki vegna dráttar á niðurstöðum úr kórónuveiruskimun. Þegar upp kom í gær að hugsanlega yrði óskað eftir þátttöku Hollendinga á HM hætti Eyjamaðurinn skiljanlega við brottför frá Hollandi.


Holland er næsta varaþjóð til þátttöku á HM en þær tvær sem voru á undan í röðinni, Norður-Makedónía og Sviss, voru ræstar út í gærkvöld eftir að bandaríska og tékkneska landsliðið urðu frá að hverfa.


Erlingur hefur verið að heiman síðan um áramót vegna þess að hollenska landsliðið tók þátt í tveimur leikjum í undankeppni EM2022, eins og handbolti.is hefur sagt frá. Leikið var við Slóvena og tapaðist fyrri leikurinn en þjóðirnar skildu með skiptan hlut í síðari viðureigninni.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -