- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sennilega verður að klippa aftan af mótinu

Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, og leikmenn naga sig í handarbökin eftir jafntefli við Stjörnunar í gærkvöld. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, segir það hafa verið gott að geta æft áfram eftir að keppni var hætt í Olísdeild kvenna fyrir mánuði en samt hafi verið sérstakt að æfa vikum saman án þess að sjá fram á hvenær næstu yrði leikið. Hinsvegar væri lið hans nú komið í æfingabann eins og önnur.

Lykilmaður á næstu vikum

Andri Snær segir að Egill styrktarþjálfari verði lykilmaður liðsins næstu vikur með að vera í sambandi við leikmenn og sjá til þess að þeir hafi nóg af æfingum næstu vikurnar. Ómögulegt sé að segja til um hvenær hægt verður að hefja keppni á nýjan leik. Hinsvegar er það mat Andra að nauðsynlegt verði að klippa einhverja leiki aftan af Olísdeildinni og stytta þar með keppnina.

Nú um stundir er mikilvægast að mati Andra Snæs að fólk sameinist um að berja niður veiruna með öllum tiltækum ráðum. Annað taki síðan við.

Handbolti.is sendi Andra Snæ, eins og fleiri þjálfurum í Olís,- og Grill 66-deildunum nokkrar spurningar og eru svör hans eru hér að neðan.

Glímt við meiðsli

Hvernig hefur gengið að halda leikmönnum við efnið síðustu vikur?

„Það var auðvitað gott fyrir mitt lið að geta æft handbolta síðustu vikur á meðan liðin á höfuðborgarsvæðinu voru í æfingabanni. Það hefur gengið bara mjög vel, nokkrir lykilmenn reyndar að glíma við meiðsli en ég get ekki kvartað yfir síðustu vikum. Auðvitað var samt skrítið að æfa og hafa ekki hugmynd um hvenær við spilum næsta leik. Hinsvegar erum við fyrir norðan núna komin í æfingabann auk þess sem liðið er komið í sóttkví þannig að nú breytist landslagið hjá okkur.“

Hvernig horfir þú til næstu vikna sem þjálfari?

„Ég sé fram á það sama og allir þjálfarar í þessari stöðu, nú þurfa leikmenn að sýna aga og halda utan um sínar æfingar að mörgu leyti sjálfir. Egill styrktarþjálfari er lykilmaður hjá okkur næstu vikur en við í þjálfarateyminu munum vera í miklu sambandi við okkar leikmenn.“

Halda í jákvæðnina

Er eitthvað hægt að velta framhaldinu fyrir í sér í deildarkeppninni meðan óljóst er hvenær verður hægt að hefja æfingar af einhverjum krafti?

„Það er auðvitað hægt að velta ýmsu fyrir sér með framhaldið en það hefur sýnt sig að það er ómögulegt að spá fyrir um hvernig staðan verður eftir nokkrar vikur. Nú er bara mikilvægt að allir haldi í jákvæðnina og ferskleikann að halda sér í standi, svo treysti ég HSÍ fyrir því að setja upp Íslandsmótið með eins góðum hætti og hægt er. Það er allavega morgunljóst að það þarf að klippa af mótinu einhverja leiki.“

Hvaða áhrif getur ástand síðustu vikna, þ.e. leikið, takmarkaðar og jafnvel litlar æfingar, haft á framhaldið hjá liðum í Grillinu, svona heilt yfir?

„Eins og allir í handboltafjölskyldunni vita þá er það að sjálfsögðu aukin meiðslahætta sem fylgir því að fara aftur af stað eftir pásu. Annars er erfitt að segja til um framhaldið, nú verða allir á landinu að hjálpast að í baráttunni við veiruna. Það er það mikilvægasta í lífinu í dag. Í kjölfarið er vonandi að við handboltafólk getum farið af stað með okkar skemmtilegu íþrótt.“

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -