Valur2, ungmennalið félagsins, gerði sér lítið fyrir og vann Fram2, einnig lið ungmenna, í viðureign liðanna í Grill 66-deild karla í handknattleik í N1-höllinni á Hlíðarenda í gær, 29:23. Valsarar voru þremur mörkum yfir í leiknum þegar fyrri hálfleikur var að baki, 12:9. Þeir voru reyndar með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda.
Þetta var þriðji sigur Vals í fimm leikjum í deildinni. Framarar verða að bíta í það súra epli að hafa beðið lægri hlut í annað sinn á tímabilinu. Fram er þar með áfram í þriðja sæti deildarinnar með átta stig, jafnmörg og Selfoss. Þór er efstur með stigin sín 10 úr sex viðureignum.
Jens Sigurðarson, markvörður Vals og 19 ára landsliðsins, átti prýðilegan leik. Hann varði 15 skot og fylgdi eftir góðri innkomu sinni í stundarkorn í viðureign Vals og Melsungen í riðlakeppni Evrópudeildar á síðasta þriðjudag.
Með leiknum lauk sjöttu umferð Grill 66-deildar. Hlé verður á keppni í deildinni fram til 15. nóvember. Fram situr yfir í sjöundu umferð en Valur sækir Selfoss heim. Vegna þess að níu lið eru í Grill 66-deildinni þá verður ekki hjá því komist að eitt þeirra sitji yfir í hverri umferð.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.
Mörk Vals2: Þorvaldur Örn Þorvaldsson 9, Daníel Örn Guðmundsson 6, Atli Hrafn Bernburg 4, Dagur Leó Fannarsson 3, Knútur Gauti Kruger 3, Bjarki Snorrason 1, Daníel Montoro 1, Hlynur Freyr Geirmundsson 1, Loftur Ásmundsson 1.
Varin skot: Jens Sigurðarson 15.
Mörk Fram2: Marel Baldvinsson 6, Benjamín Björnsson 5, Arnþór Sævarsson 4, Max Emil Stenlund 2, Tindur Ingólfsson 2, Agnar Daði Einarsson 1, Daníel Stefán Reynisson 1, Ólafur Jón Guðjónsson 1, Róbert Árni Guðmundsson 1.
Varin skot: Breki Hrafn Árnason 9, Garpur Druzin Gylfason 1.
Grill 66-deild karla – fréttasíða.