Aðalsteinn Eyjólfsson stýrði Kadetten Schaffhausen til stórsigurs á TV Endingen í úrvalsdeild karla í handknattleik í Sviss í gærkvöld, 42:26, á útivelli. Kadetten var sex mörkum yfir að loknum fyrri hálfeik, 21:15.
Vörn Kadetten var mikið betri í síðari hálfeik en í þeim fyrri en sóknarleikurinn var jafn öflugur og áður. Ungverjinn Gabor Csaszar fór á kostum í liði Kadetten. Hann skoraði 10 mörk, tvö úr vítaköstum. Eins var markvörðurinn Kristian Pilipovic frábær. Hann varði 17 skot.
Kadetten er þar með áfram í efsta sæti deildarinnar með 20 stig að loknum 12 leikjum. HC Kriens er næst á eftir með 17 stig en á leik til góða á Kadetten-liðið. Suhr Aarau og St Gallen hafa 16 stig hvort eftir 12 leiki en Pfadi Winterthur 14 stig að loknum níu leikjum. Pfadi mætir Zug á heimavelli í dag.