Leik ungmennaliðs Hauka og Kórdrengja í Grill66-deild karla sem fram átti að fara annað kvöld á Ásvöllum hefur verið frestað fram á nýtt ár. Viðureignin átti að vera sú síðasta í deildarkeppni meistaraflokks á Íslandsmótinu í handknattleik á þessu ári.
Frestunin er ekki tilkomin vegna hertra sóttvarnarreglna sem taka gildi á miðnætti að sögn Róberts Geirs Gíslasonar framkvæmdastjóra HSÍ. Hann segir að ekki séu forsendur til að leika annað kvöld. Mjög sé komið nærri jólum og leikmenn og starfsmenn séu komnir með hugann við annað en handknattleik. Ekkert hasti heldur að leikurinn fari fram. Þess vegna hafi verið ákveðið að ýta leiknum eitthvað fram yfir áramót.
Róbert Geir sagði ennfremur að hertar sóttvarnarreglur sem taka gildi á miðnætti muni ekki koma í veg fyrir að hægt verði að taka upp þráðinn í Olísdeild kvenna og í Grill66-deildum karla og kvenna snemma í janúar hafi reglurnar þá ekki verið rýmkaðar. Þó væri ljóst að meðan reglurnar verða í gildi megi áhorfendur ekki mæta nema að þeir geti sýnt fram á neikvæða niðurstöðu í hraðprófi.