„Undangenginn sólarhringur gat ekki endað á betri veg en þennan,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla í viðtali við handbolta.is í dag eftir að íslenska landsliðið vann Slóveníu, 39:31, og tryggði sér sæti í undanúrslitum Evrópumóts karla í handknattleik í fyrsta sinn í 16 ár. Um leið var sæti í lokakeppni HM á næsta ári innsiglað.
Síðasti sólarhringur hefur verið sannkölluð rússibanareið fyrir leikmenn, þjálfara og starfsmenn landsliðsins; allt frá vonbrigðunum með leikinn við Sviss í gær þegar möguleikinn á sæti í undanúrslitum virtist vera að renna íslenska liðinu úr greipum og þangað til í dag þegar landsliðið lék við hvern sinn fingur og vann Slóvena í úrslitaleik um sæti í undanúrslitum EM.
Stutt í næsta leik
„Þetta hefur verið svakalegt mót á tilfinningaskalanum en ég verð að skoða það mál betur þegar ég kem heim. Næsti leikur er á föstudaginn, undanúrslitaleikur á EM og ég og þjálfarateymið verðum að fara að búa okkur undir þá viðureign,“ sagði Snorri Steinn yfirvegaður en glaður í bragði.
„Við erum á leiðinni í undanúrslit á EM og markmiðið er að gera sig gildandi þar. Eitt markmið er í höfn en þau geta verið fleiri sem við höfum í huga,“ sagði Snorri Steinn enn fremur.
Tveir fundir – eins og svart og hvítt
Snorri Steinn segir fundina tvo sem hann hefur haldið með leikmönnum á undanförnum sólarhring hafa verið eins og svart og hvítt.
„Annar var bara sorglegur á meðan hinn var alveg í gagnstæða átt.
Við höfum hins vegar unnnið fyrir þeirri stöðu sem við erum komnir í, undanúrslit á EM. Við höfum unnið tvo leiki og gert eitt jafntefli í milliriðlakeppninni. Það er ekkert hræðilegt sem gerist þótt lið tapi stigi í milliriðlum gegn frábærum þjóðum en vissulega var maður ekki bjartsýnn eftir leikinn við Sviss. Vissulega gerði jafntefli Ungverja og Svía allan undirbúning fyrir leikinn í dag mikið auðveldari,“ sagði Snorri Steinn enn fremur.
Menn hertu upp hugann
„Mér fannst liðið sýna ótrúlega góðan leik í dag og sýna mikinn styrk. Okkur brást bogalistin í aragrúa færa í fyrri hálfleik en Slóvenar voru samt með tveggja marka forskot í hálfleik. Við höfum stundum lent í mótlæti á mótinu og því hefði verið hægt að brotna. Það gerðist alls ekki, þvert á móti. Menn hertu upp hugann. Við vorum bara alltaf í færum meðan Slóvenar þurftu að hafa meira fyrir sínum mörkum. Um leið og við náðum fjögurra til fimm marka forskoti þegar á leið síðari hálfleik þá leið mér betur þótt ég hafi ekki verið rólegur á hliðarlínunni frekar en fyrridaginn,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson sem er annar íslenski þjálfarinn til þess að stýra íslenska landsliðinu inn í undanúrslit Evrópumóts í handknattleik karla.

