- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Siggi Sveins skaut eins og John Wayne!

Sigurður Valur Sveinsson var klæddur upp sem hermaður í stórskotasveit Þýskalands þegar hann varð markakóngur með Lemgo 1985, skoraði 191 mark.
- Auglýsing -

Ómar Ingi Magnússon, Magdeburg, og Bjarki Már Elísson, Lemgo, urðu að játa sig sigraða í markakóngskeppni við Danann Íslandsættaða Hans Óttar Lindberg, Füchse Berlín, þegar síðasta umferð þýsku „Bundesligunnar“ fór fram í dag, 12. júní. Hans Óttar var búinn að skora 233 mörk fyrir lokaumferðina, Ómar Ingi 231 og Bjarki Már 230.

Hans Lindberg varð markakóngur þýsku úrvalsdeildarinnar í dag í þriðja sinn á ferlinum. Mynd/EPA

* Hans Óttar skoraði 9 mörk gegn Flensborg, 22:28. Hann skoraði alls 242 mörk í „Bundesligunni“.

* Ómar Ingi skoraði 6 mörk gegn Rhein-Neckar Löwen, 37:34. Hann skoraði alls 237 mörk.

* Bjarki Már skoraði 4 mörk gegn Hamborg, 28:23. Hann skoraði alls 234 mörk.

 Þetta er í þriðja skipti sem Hans Óttar verður markakóngur í „Bundesligunni“: Hann skoraði 257/135 mörk fyrir Hamburg 2009-2010 og 235/99 mörk fyrir liðið 2012-2013.

Ómar Ingi Magnússon, leikmaður SC Magdeburg og íslenska landsliðsins. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

 Siggi  varð fyrsti „kóngurinn“

 Margar íslenskar stórskyttur á Íslandi voru eftirsóttar í Þýskalandi á árum áður, frá því að Geir Hallsteinsson og Axel Axelsson létu ljós sitt skína. Sigurður Valur Sveinsson varð fyrstur Íslendinga til að verða markakóngur í „Bundesligunni“ er hann skoraði 191/81 mark tímabilið 1984-1985 sem leikmaður með Lemgo, sem var í fallhættu. Það var mikið fjallað um Sigurð í blöðum, en hann hrellti hvern markvörðinn á fætur öðrum og skoraði 13 af 20 mörkum Lemgo gegn Grosswallstadt, 20:23. Þegar Lemgo var yfir 8:6 í byrjun leiks, var Siggi búinn að skora sex mörk. Hann var þá tekinn úr umferð, en þrátt fyrir að bætti hann við sjö mörkum.

 Sigurður Sveinsson – „Kóngurinn frá Lüttfeld“ í Lemgo – var í aðalhlutverki fyrir leik gegn Kiel og sagði blaðið Bild Zeitung að það væri sennilega best fyrir markverði Kielarliðsins að klæðast útbúnaði íshokkímarkvarða í leiknum; því að í liði Lemgo léki Sveinsson, skotharðasti leikmaðurinn „Bundesligunni“. Talið var aó Sigurður skjóti með 130 km hraða á klst., sem er sama mælanlega skotharka og Hansi Schmidt hafði þegar hann var upp á sitt besta, en Hansi var þekktur fyrir sín þrumuskot. Fékk markverði til að skjálfa. 

Sigurður Valur Sveinsson klæddur upp sem hermaður í stórskotasveit Þýskalands þegar hann varð markakóngur með Lemgo 1985.

 Eftir leikinn var Sigurður aftur í sviðsljósinu í blöðum, þar sem hann skoraði 12 mörk í Kiel. Það dugði þó ekki til sigurs; Kiel vann 28:23. 

 Það var sagt að engin furða væri á að Sigurður skjóti svona fast. Hann gat aðeins notað hendurnar til að hreyfa sig fram til fimm ára aldurs. Vegna sjúkdóms gat hann ekki hreyft fæturna. Eftir vel heppnaðan uppskurð lærði Sigurður sex ára að hlaupa og að leika handknattleik. Ellefu árum seinna lék hann í fyrsta skipti í íslenska landsliðinu. 

 Sigurður varð geysilega vinsæll í Lemgo fyrir skemmtilega framkomu á leikvelli. Hann var töframaður með knöttinn, var skotfastur og með afar fjölbreyttan skotstíl. Bjó yfir mikilli tækni og línusendingar hans voru eitraðar. Þegar Sigurður var í essinu sínu, var erfitt að ráða við hann.

 Sigurður bjargaði Lemgo frá falli er hann skoraði tíu mörk í Flensborg og tryggði Lemgo sigur, 25:20.

 Eitt sinn var þetta sagt um Sigga Sveins!: „Hann skýtur eins og John Wayne (í kúrekamyndum) gerði þegar hann var upp á sitt besta – snöggt og hnitmiðað!“

 Guðjón Valur Sigurðsson varð næstur Íslendinga til að verða markakóngur í „Bundesligunni“. 2005-2006 skoraði hann 264/69 mörk fyrir Gummersbach og tímabilið á eftir (2006-2007) varð hann í öðru sæti með 221/4 mörk. Guðjón Valur varð í fimmta sæti sem leikmaður með Rhein-Necker Löwen  2008-2009 með 193/72 mörk og í fjórða sæti 2016-2017 er hann skoraði 201/53 mörk fyrir Löwen.

 Ólafur Stefánsson náði ekki að verða markakóngur sem leikmaður með Magdeburg. Hann varð í sjötta sæti meistaraárið 2000-2001 með 225/54 mörk og árið eftir í þriðja sæti með 221/76 mark.

Bjarki Már Elísson varð þriðji markahæstur í þýsku 1. deildinni sem lauk í dag. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Bjarki Már í fótspor Sigga

 Bjarki Már Elíasson fetaði í fótspor Sigurðar Sveinssonar, þegar hann var eins og Siggi leikmaður með Lemgo er hann varð markakóngur með 216/72 mörk. Það var fyrsta árið hans með Lemgo, eftir að hann kom frá Füchse Berlín.

 Ómar Ingi Magnússon, Magdeburg, var markakóngur í „Bundesligunni“ tímabilið 2020-2021 með 274/134 mörk. Bjarki Már var þá þriðji með 254/95 mörk og Viggó Kristjánsson, Stuttgart, sjötti, með 230/88 mörk.

Kyung-Shin Yoon í leik með HSV Hamburg síðla á ferlinum. Mynd/EPA

Yoon oftast meistari

 Kóreumaðurinn Kyung-shin Yoon hefur oftast orðið markakóngur, eða sjö sinnum. Pólverjinn Jerzy Klempel varð þrisvar „kóngur“ – eins og Hans Óttar Lindberg. Tvisvar hafa þessir orðið markakóngar; Lars Christiansen, Andreas Dörhöfer, Arno Ehret, Jochen Fraatz og Erhard Wunderlich.

 Siggi og Bjarki Már „kóngar“ í 2. deild

 * Sigurður Sveinsson, Dortmund, varð markakóngur í 2. deildarkeppninni norður tímabilið 1989-1990. Hann skoraði þá 160 mörk.

 * Bjarki Már Elísson, Eisenach, var markakóngur í 2. deild 2014-2015 (búið að sameina norður og suður deild) með 279/86 mörk.

Auf Wiedersehn!

Sigmundur Ó. Steinarsson.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -