ÍBV er komið í undanúrslit um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla eftir jafntefli, 33:33, við FH í Kaplakrika í kvöld í síðari viðureign liðanna sem var í meira lagi dramatískur á lokasekúndunum. Fyrri leiknum lauk einnig með jafntefli, 31:31, og fer ÍBV þar með áfram í undanúrslit og mætir annað hvort Val eða KA. Sigtryggur Daði Rúnarsson var hetja ÍBV. Hann jafnaði metin á síðustu sekúndum leiksins.
Phil Döhler varði frá Sveini Jose Rivera, ÍBV, af línunni þegar hálf mínúta var eftir af leiknum og staðan, 33:32, fyrir FH. Hinum megin varði Petar Jokanovic frá Ásbirni Friðrikssyni þegar 14 sekúndur voru til leiksloka. ÍBV tók leikhlé og eftir það lék liðið saman þar til Sigtryggur Daði skoraði jöfnunarmarkið tveimur sekúndum fyrir leikslok, markið sem innsiglaði ÍBV sæti í undanúrslitum á kostnað FH.
FH var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15:13.
ÍBV var síðast yfir í leiknum, 4:3, þegar sjö mínútur voru liðnar af leiknum. Eftir það var FH-liðið með yfirhöndina þar til í blálokin á leiknum, m.a var FH þremur mörkum yfir, 33:30, þegar þrjár mínútur voru til leiksloka. Eins og venjulega gáfust Eyjamenn aldrei upp og það skilaði þeim þessum árangri.
Mörk FH: Egill Magnússon 9, Ásbjörn Friðriksson 7, Einar Rafn Eiðsson 5/4, Arnar Freyr Ársælsson 3, Jón Bjarni Ólafsson 3, Jakob Martin Ásgeirsson 2, Ágúst Birgisson 1, Birgir Már Birgisson 1.
Varin skot: Phil Döhler 12, 33,3%, Birkir Fannar Bragason 1, 12,5%.
Mörk ÍBV: Hákon Daði Styrmisson 11/6, Sigtryggur Daði Rúnarsson 5, Theodór Sigurbjörnsson 5, Fannar Þór Friðgeirsson 4, Dagur Arnarsson 4, Kári Kristján Kristjánsson 2, Arnór Viðarsson 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 14, 35% – Björn Viðar Björnsson 2, 22,2%.