Eftir mánaðar hlé gengu leikmenn MT Melsungen út á leikvöllinn í kvöld þegar þeir mættu, og unnu, Bergischer HC á heimavelli, 32:31, í hnífjöfnum og æsilega spennandi leik í þýsku 1. deildinni í handknattleik.
Guðmundur Þórður Guðmundsson og lærisveinar hans hafa ekki leikið deildarleik frá 1. nóvember þegar þeir mættu Nordhorn. Eftir þá viðureign tók við hlé í deildinni vegna undankeppni EM karlalandsliða. Þegar undankeppninni lauk tók við sóttkví sökum þess að smit kom upp í herbúðum Melsungen. Sóttkví lauk loksins á miðvikudaginn
Leikmenn Melsungen voru heldur með frumkvæðið í leiknum við Bergischer ef eitthvað var. Þeir voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 17:15. Annars var munurinn lítill á liðunum að þessu sinni. Kai Häfner skoraði 32. mark Melsungen þegar hálf önnur mínúta var til leiksloka, 32:30. Fabian Gutbrod minnkaði muninn fyrir Bergischer HC þegar hálf mínúta var eftir af leiktímanum. Leikmenn Melsungen náðu að halda boltanum það sem eftir var án þess þó að bæta við marki.
Arnar Freyr Arnarsson var mest í vörn Melsungen að þessu sinni og stóð sig vel. Honum tókst ekki að skora.
Ragnar Jóhannsson var í liði Bergischer en virðist ekki hafa fengið mörg tækifæri til að láta ljós sitt skína.
Fjölgun hjá Arnóri Þór
Arnór Þór Gunnarsson tók ekki þátt í leiknum enda hafði hann allt annað og mikilvægara fyrir stafni þar sem honum og Jovönu Lilju Stefánsdóttur fæddist drengur í dag. Fyrir eiga þau dóttur. Handbolti.is óskar þeim hjartanlega til hamingju.
Staðan í þýsku 1. deildinni:
Rhein-Neckar Löwen 16(9), Kiel 16(9), Flensburg 14(8), Stuttgart 13(10), Göppingen 12(9), F.Berlin 11(8), Leipzig 11(9),Lemgo 11(10), Wetzlar 10(10), Melsungen 11(7), Erlangen 9(10), Magdeburg 8(8), Hannover-Burgdorf 7(8), Bergischer 7(9), Nordhorn 6(10), Balingen-Weilstetten 5(10), Luwdigshafen 5(10), GWD Minden 3(7), Essen 3(8), Coburg 0(9).
Í dag voru fleiri leiki í þýsku 1. deildinni þar sem Íslendingar komu við sögu. Umfjöllun um þá er að finna með því að smella hér og hér.