Tumi Steinn Rúnarsson og samherjar hans í Coburg unnu í dag annan leik sinn í 2. deild þýska handknattleiksins. Coburg lagði Bayer Dormagen, 28:22, á heimavelli eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15:13.
Tumi Steinn skoraði eitt mark í leiknum en gaf fimm stoðsendingar í HUK-Coburg Arena keppnishöllinni að viðstöddum nærri 1.500 áhorfendum. Coburg hefur þar með fjögur stig eftir fjóra leiki og er í 10. sæti af 18 liðum.
Ekki gengur sem best hjá Íslendingatríóinu hjá GWD Minden sem féll niður í 2. deild í vor. Liðið féll úr bikarkeppninni í vikunni og í dag tapaði Minden fyrir ASV Hamm-Westfalen í hörkuleik á heimavelli, 29:28.
Bjarni Ófeigur Valdimarsson og Sveinn Jóhannsson skoruðu þrjú mörk hvor fyrir GWD Minden. Bjarni Ófeigur gaf eina stoðsendingu. Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari GWD Minden sem er á meðal neðstu liða með tvö stig eftir fjóra leiki.