„Ég er ótrúlega ánægður með hvernig við komum inn í seinni hálfleikinn. Við vorum rosalega þéttir frá upphafi. Þetta var mjög öflugt,“ sagði Orri Freyr Þorkelsson landsliðsmaður í handknattleik sem skoraði sex mörk í síðari hálfleik og var markahæstur í sigurleiknum á Pólverjum, 31:23, í annarri umferð riðlakeppni Evrópumótsins í Kristianstad í Svíþjóð í kvöld.
Magnað, algjör forréttindi
„Ég er mjög stoltur af þessum leik. Þetta var mikill liðsheildarsigur hjá okkur, með frábæra stuðningsmenn á bak við okkur. Ég er svo hrikalega þakklátur að fá að upplifa þessa stemningu. Þetta er alveg magnað, algjör forréttindi,“ sagði Orri Freyr Þorkelsson um stuðninginn og stemninguna meðal 3.000 Íslendinga á leiknum í kvöld og á föstudaginn gegn Ítalíu.




