Sigurður Jefferson Guarino línumaður HK skoraði sjö mörk fyrir bandaríska landsliðið í handknattleik þegar það vann landslið Moldóvu, 42:26, á þróunarmóti Alþjóða handknattleikssambandsins í Búlgaríu í dag. Sigurður lék með í rúmar 46 mínútur í leiknum. Mörkin sjö skoraði Sigurður í tíu skotum og var næst markahæstur. Hann átti einnig fjórar stoðsendingar.
Bandaríska landsliðið hefur þrjú stig eftir tvo leiki á mótinu og mætir landsliði Aserbaísjan á morgun. Aserbaísjan tapaði fyrir Nígeríu í dag með 12 marka mun, 29:17. Bandaríska landsliðið gerði jafntefli við nígeríska landsliðið í gær í fyrstu umferð, 31:31. Sigurður kom ekkert við sögu í þeim leik en var þó á skýrslu og fékk skráðan á sig sinn fyrsta landsleik fyrir Bandaríkin.
Þrír dómarar dæma hvern leik á mótinu. Viðureign Bandaríkjanna og Moldóvu dæmdu Bosníumaður, Frakki og Pólverji.