- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sigurganga ÍBV heldur áfram meðan Valur tapar og tapar

Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV og leikmenn leggja á ráðin. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

ÍBV vann fimmta leikinn í röð í Olísdeild kvenna í kvöld er liðið lagði Val með átta marka mun, 30:22, í Vestmannaeyjum. Þar með er Eyjaliðið komið upp í fjórða sæti deildarinnar með 14 stig og virðist til alls líklegt. ÍBV var sex mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik 15:9. Með Evrópuleikjunum tveimur snemma árs þá hefur ÍBV unnið allar sjö viðureignir sínar á árinu. Virðist liðið til alls líklegt um þessar mundir.


Ekki blæs eins byrlega hjá Val sem var að tapa sínum fjórða leik í röð í deildinni. Valur heldur þó enn öðru sæti með 16 stig en leikmenn KA/Þórs og ÍBV anda orðið niður í hálsmálið á Hlíðarendakonum, einu og tveimur stigum á eftir auk þess að eiga leiki til góða.


Valskonur byrjuðu leikinn lipurlega og voru yfir, 4:2, eftir nærri sjö mínútur. Þá tók við 14 mínútna markalaus kafli þar sem hvorki gekk né rak hjá þeim gegn afar sterkri vörn ÍBV-liðsins. ÍBV notaði tækifærið og skoraði sex mörk í röð áður en Valsliðinu tókst að brjóta vörn ÍBV á bak aftur og skora fimmta markið, 10:5. Minnstur varð munurinn fjögur mörk, 11:7. Leikmenn ÍBV voru ekki á þeim buxunum að gefa neitt eftir og voru með sex marka forskot þegar fyrri hálfleikur var á enda, 15:9.


Síðari hálfleikur bar merki þess sem gekk á í fyrri hálfleik. Leikmenn ÍBV léku áfram góða vörn og leyfðu Valsliðinu aldrei að nálgast að nokkru ráði.


Mörk ÍBV: Marija Jovanovic 10, Elísa Elíasdóttir 6, Harpa Valey Gylfadóttir 4, Karolna Olszowa 3, Sunna Jónsdóttir 2, Lina Cardell 2, Sara Dröfn Ríkharðsdóttir 1, Ólöf María Stefánsdóttir 1, Þóra Björg Stefánsdóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 5, 23,8% – Erla Rós Sigmarsdóttir 3, 33,3%.

Mörk Vals: Mariam Eradze 7, Lovísa Thompson 5, Auður Ester Gestsdóttir 3, Hildur Björnsdóttir 2, Thea Imani Sturludóttir 2, Hildigunnur Einarsdóttir 2, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 10/1, 25,6%.

Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.

Stöðu og næstu leiki í Olísdeild kvenna má sjá hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -