„Þetta gekk svo vel alveg frá byrjun. Tilfinningin núna eftir svona frábæran leik er alveg æðisleg,“ sagði Rut Arnfjörð Jónsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins og leikstjórnandi, í samtali við handbolta.is eftir sigurleikinn á Serbum, 23:21, í undankeppni EM kvenna í handknattleik á Ásvöllum í dag.
„Vissulega komu kaflar sem voru erfiðir en við náðum samt að halda stöðugleika sem var mjög stórt skref fyrir okkur. Við héldum haus og létum slæmu kaflana ekki slá okkur út af laginu. Ég er gríðarlega sátt við það. Þess utan var Ragnheiður frábær í sóknarleiknum. Það munar svo miklu þegar skotin hennar rata rétta leið. Ég er bara svo glöð að ég veit varla hvað á að segja. Því má ekki gleyma að Serbar eru með framúrskarandi lið,“ sagði fyrirliðinn sem lék sinn 101. landsleik að þessu sinni.
Von til að elta
Rut sagði ennfremur að miklu máli skipti fyrir landsliðið að það á enn möguleika á að keppa um annað sæti riðilsins. Enn eru fjórir leikir eftir en tap í dag hefði þýtt að vonin hafi verið orðin lítil. Af þeim ástæðum hefði verið erfitt að halda uppi stemningu og spennu fyrir leikina sem eftir eru.
„Möguleikinn er fyrir hendi, draumurinn lifir sem auðveldar okkur að takast á við næsta verkefni þegar maður sér að það er von. Það virkar hvetjandi á alla til að halda áfram að bæta sig. Sigurinn og leikurinn fyllir okkur sjálftrausti,“ sagði Rut sem var einnig himinglöð með stemninguna á leiknum. Íslenskir áhorfendur voru fjölmennir og létu vel í sér heyra auk vasks hóps Serba sem settu skemmtilegan svip á leikinn.
Frábær stemning
„Það er langt síðan ég hef leikið landsleik hér heima þar sem stuðningurinn hefur verið svona mikill. Auðvitað hjálpaði það upp á að leikurinn gekk vel. En vonandi er þetta eitthvað sem koma skal. Fyrst skrefið hefur verið stigið,“ sagði Rut Arnfjörð Jónsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik.