Afturelding vann hreint ótrúlegan sigur á ÍBV að Varmá í kvöld, 27:22, og vann sér sæti í átta liða úrslitum Poweradebikarsins í handknattleik karla. Eyjamenn voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 12:8, og 17:12, eftir 12 mínútur í síðari hálfleik.
Fátt benti til þess að Aftureldingarliðið myndi snúa við taflinu. Það varð hinsvegar raunin og ekki síst fyrir stórleik markvarðarins unga, Sigurjóns Braga Atlasonar. Hann lokaði markinu, og varði alls 18 skot í leiknum, þar á meðal vítakast og skot úr opnum færum á þeim tíma sem Mosfellingar voru að vinna upp forskot ÍBV frá 42. til 52. mínútu.
Ihor Kopyshynskyi kom Aftureldingu yfir í fyrsta sinn í leiknum, 20:19, átta mínútum fyrir leikslok. Eftir það horfðu Aftureldingarmenn ekki um öxl. Örvæntingafullar tilraunir leikmanna ÍBV til þess að komast í inn í leikinn á ný báru ekki árangur. Aftureldingarmenn gengu á lagið og sigldu beggja skauta byr allt þar til komið var í höfn, Þeir unnu, ótrúlegt en satt, öruggan sigur, 27:22.
Afturelding skoraði 19 mörk í síðari hálfleik og fengu aðeins á sig 10 sem Sigurjón Braga í ham í markinu.
Ótrúleg umskipti á innan við 20 mínútna kafla.
Þetta var annar stórleikur Sigurjóns Braga í röð en hann fór einnig á kostum gegn Fram í síðustu viku.
Mörk Aftureldingar: Ihor Kopyshynskyi 6, Stefán Magni Hjartarson 5, Oscar Sven Leithoff Lykke 4, Ágúst Ingi Óskarsson 3, Árni Bragi Eyjólfsson 3, Harri Halldórsson 3, Kristján Ottó Hjálmsson 3.
Varin skot: Sigurjón Bragi Atlason 18.
Mörk ÍBV: Andri Erlingsson 6, Jakob Ingi Stefánsson 5, Daníel Þór Ingason 3, Elís Þór Aðalsteinsson 3, Hinrik Hugi Heiðarsson 2, Sigtryggur Daði Rúnarsson 1, Sveinn José Rivera 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 12.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.