Landsliðsmanninum Sigvalda Birni Guðjónsson líkar svo vel lífið hjá norska meistaraliðinu Kolstad í Þrándheimi að hann hefur skrifað undir nýjan sex ára samning við félagið, fram til loka leiktíðarinnar sumarið 2030. Frá þessu er sagt á heimsíðu Kolstad í dag. Sigvaldi Björn er fyrirliði Kolstad. Hann gekk til liðs við félagið sumarið 2022 eftir tveggja ára veru hjá Kielce í Póllandi.
Einstakt er að íþróttamenn skrifi undir jafn langan samning við félagslið þótt vel þekkt sé að þeir ílendist hjá félagsliðum þar sem þeir kunna vel við sig.
Sigvaldi Björn verður 36 ára gamall þegar samningurinn gengur út eftir sex ár. Í samtali við heimasíðu félagsins segist Sigvaldi hafa tröllatrú á framtíð félagsins. Hann vilji gjarnan leggja sín lóð á vogarskálarnar á næstu árum svo Kolstad verði áfram í fremstu röð liða, jafnt í Noregi sem og í Meistaradeild Evrópu.
Kolstad varð norskur meistari í fyrsta skipti á síðustu leiktíð. Vann þá öll verðlaun sem í boði voru. Í haust tók liðið sæti í Meistaradeild Evrópu og er í harðri keppni um að komast í útsláttarkeppnina sem tekur við að lokinni riðlakeppninni. Á miðvikudaginn leikur Kolstad sannkallaðan fjögurra stiga leik við RK Zagreb en bæði lið eru á barmi þess að komast áfram í riðlakeppnina.
Sigvaldi Björn flutti með fjölskyldu sinni til Danmerkur 12 ára gamall. Hann hóf að æfa handknattleik með HK í Kópavogi á barnsaldri. Eftir nokkurra ára veru í Danmörku fluttu foreldrar Sigvalda Björns aftur til Íslands. Hann varð eftir í Danmörku og lagði stund á framhaldsnám auk þess að æfa og leika handknattleik. Í Danmörku lék Sigvaldi Björn með Vejle, Bjerringbro/Silkeborg en var síðan hjá Århus Håndbold um þriggja ára skeið áður en hann fluttist til Elverum sumarið 2018. Frá Elverum fór hann til Kielce í Póllandi og var þar í tvö ár uns Noregur togaði á ný sumarið 2022 með samningi við Kolstad sem nú hefur verið framlengdur til 2030. Sigvaldi Björn lék sinn fyrsta A-landsleik gegn norska landsliðinu 8. júní 2017. Hann hefur átt sæti í íslenska landsliðinu á stórmótum frá og með HM 2019. Alls eru landsleikirnir orðnir 72 og mörkin eru 207. Sigvaldi Björn hefur aldrei leikið með félagsliði í efstu deild á Íslandi. Hann verður þrítugur 4. júlí á þessu ári.