Íslenska landsliðið í handknattleik karla, skipað leikmönnum 19 ára og yngri, hafnaði í öðru sæti annað árið í röð, á Sparkassen Cup mótinu í Merzig í Þýskalandi í kvöld. Liðið tapaði fyrir Þýskalandi í úrslitaleik, 31:27. Staðan var jöfn eftir fyrri hálfleik, 12:12.
Þjóðverjar voru sterkari í síðari hálfleik. Þeir náðu fljótlega yfirhöndinni og létu hana aldrei af hendi þrátt fyrir ákafar tilraunir íslensku piltanna sem margir hverjir voru að leika saman í fyrsta sinn á mótinu.
Skarð var fyrir skildi í varnarleiknum að Jökull Blöndal Björnsson gat ekki verið með vegna meiðsla sem hann varð fyrir undir lok viðureignarinnar við Serba í morgun.
Keppnishöllinn í Merzig var troðfull og jafnvel var staðið við endalínurnar eins og sést á myndinni fyrir ofan.
Þátttakan á mótinu er dýmæt reynsla fyrir íslensku strákana sem taka þátt í heimsmeistaramótinu í Egyptalandi næsta sumar. Þeir unnu fjóra leiki á mótinu og töpuðu einum.
Jens valinn bestur
Jens Sigurðarson var valinn besti markvörður mótsins í kosningu á meðal áhorfenda.
Röð liðanna á mótinu:
1. Þýskaland A | 5. Slóvenía |
2. Ísland | 6. Sviss |
3. Þýskaland B | 7. Úrv.lið Saarlands |
4. Serbía | 8. Holland |
Mörk Íslands: Ágúst Guðmundsson 4, Garðar Ingi Sindrason 4/1, Stefán Magni Hjartarson 4, Baldur Fritz Bjarnason 3, Elís Þór Aðalsteinsson 3, Andri Erlingsson 2, Bessi Teitsson 2, Leó Halldórsson 2, Daníel Bæring Grétarsson 1, Daníel Montoro 1, Max Emil Stenlund 1.
Varin skot: Sigurjón Bragi Atlason 5, Jens Sigurðarson 4.