Viktor Gísli Hallgrímsson og liðsfélagar í Wisla Plock máttu bíta í það súra epli að tapa fyrir Industria Kielce, 27:24, í úrslitaleik pólsku bikarkeppninnar í gær. Kielce-menn voru sterkari í leiknum frá upphafi til enda og höfðu m.a. fjögurra marka forskot í hálfleik, 17:13. Leikið var í íþróttahöllinni glæsilegu í Kalisz.
Viktor Gísli Hallgrímsson byrjaði ekki í marki Wisla Plock en var fljótlega kallaður til leiks vegna þess að Mirko Alilović náði sér lítt á strik. Ekki liggur fyrir tölfræði um hvernig Viktor Gísli stóð sig í markinu.
Wisla Plock varð bikarmeistari á síðasta ári og ætlaði liðið þar af leiðandi að leggja allt í sölurnar til þess að verja titilinn. Allt kom fyrir ekki og Kielce hafði betur í öðrum slag stórliðanna á tímabilinu. Kielce og Wisla Plock eru tvö lang sterkustu handknattleikslið Póllands og hafa verið um árabil.