- Auglýsing -
- Spánverjinn Ambros Martin hætti óvænt sem þjálfari rússneska kvennaliðsins Rostov-Don í lok júlí eftir tveggja ára starf. Undir stjórn Ambros varð Rostov-Don tvisvar rússneskur meistari, einu sinni bikarmeistari og tvisvar meistari meistaranna auk þess sem liðið hafnaði í öðru sæti í Meistaradeild Evrópu vorið 2019. Ambros verður áfram þjálfari rússneska kvennalandsliðsins en hann tók við því starfi sumarið 2019 af hinum goðsagnakennda Evgeni Trefilov.
- Af Trefilov er það að frétta að hann hefur að mestu rifað seglin í þjálfun af heilsufarsástæðum. Trefilov hefur verið hjartasjúklingur um árabil og ekki alltaf farið vel með sig þrátt fyrir veikindi. Hann sinnir eftirlitsstarfi á vegum rússneska handknattleikssambandsins, leitar uppi efnilegt handknattleiksfólk og þjálfara, og er þeim síðarnefndu til ráðgjafar, að sögn, Sergey Shishkarev, forseta rússneska handknattleikssambandsins, og eins af auðugri mönnum Rússlands. Trefilov, sem er 64 ára gamall og býr í Krastnodar, er sagður fylgjast grannt með liði sínu Kuban Krastnodar, en kemur ekki lengur nálægt þjálfun þess. Þó mun koma fyrir að hann gefi leikmönnum og þjálfurum föðurleg ráð, að sögn Shishkarev sem hugsar vel um vin sinn.
- Svíinn Per Johansson tók við þjálfun Rostov-Don af Martin. Johansson hætti hjá rúmenska stórliðinu CSM Bucaresti í vor. Samhliða starfi sínu hjá rússneska félaginu mun Johansson stýra kvennalandsliði Svartfjallalands eins og hann hefur gert síðustu þrjú ár. Johansson var um skeið þjálfari sænska kvennalandsliðsins, m.a. þegar það hafnaði í öðru sæti á EM2010.
- Helle Thomsen var í byrjun ágúst ráðin þjálfari tyrkneska liðsins Kastamonu en áður hafði hún afþakkað boð um að taka við þjálfun Rostov-Don. Thomsen, sem er 49 ára gömul og hefur m.a. verið kvennalandsliðsþjálfari Hollands og Svíþjóðar, stýrði Molde í Noregi frá 2018 til 2020 eftir að hafa gert stuttan og stormasaman stans hjá rúmenska liðinu CSM Bucaresti leiktíðina 2017 til 2018. Kastamonu varð tyrkneskur meistari 2019 og leikur í Evrópudeildinni í vetur eftir að hafa orðið undir í kapphlaupi um sérstakt keppnisleyfi, svokallað „wild card“, í Meistaradeild kvenna.
- Serbneski landsliðsmaðurinn og vinstri hornamaðurin Darko Djukic yfirgaf Meshkov Brest í sumar og gekk til liðs við Sporting í Portúgal. Jens Schöngarth venti kvæði sínu einnig í kross í sumar og skrifaði undir samning við Sporting eftir stuttan stans hjá Flensburg. Schöngarth lék með HSV Hamburg á síðasta vetri.
- Ole Rahmel gekk einnig til liðs við portúgalska liðið frá THW Kiel. Fjórði leikmaðurinn sem fluttist til Lissabon í sumar og gerðist liðsmaður Sporting var slóvenski línumaðurinn Matic Suholeznik. Hann var Dunkerque á síðasta keppnistímabili. Þá tók Rui Silva við þjálfun Sporting-liðsins í sumar en hann var aðstoðarþjálfari á síðasta keppnistímabili.
- Sænski landsliðsmaðurinn Lukas Nilsson yfirgaf þýska meistaraliðið THW Kiel í byrjun ágúst og skrifaði undir þriggja ára samning við Rhein-Neckar Löwen.
- Tim Sørensen kvaddi Göppingen á dögunum og samdi við Mors-Thy í heimalandi sínu í Danmörku. Sørensen gerði tveggja ára samning við Mors-Thy.
- Hinn fertugi fyrrverandi landsliðsmaður Króata, Renato Sulic, hætti við að leggja keppnisskóna á hilluna í sumar. Hann skrifaði óvænt undir samning við bernskufélag sitt, RK Zamet. Sulic stendur á fertugu.
- Jordi Ribera hefur framlengt samning sinn um þjálfun spænska karlalandsliðsins í handknattleik til ársins 2024. Ribera tók við þjálfun landsliðsins 2016 og undir hans stjórn hefur spænska landsliðið í tvígang orðið Evrópumeistari, 2018 og 2020.
- Hinn frábæri handknattleiksmaður Kim Ekdal Du Ritetz er mikið ólíkindatól. Hann ákvað í vor að hætta öðru sinni í handknattleik eftir að hafa leikið tvö tímabil með PSG. Du Ritetz tilkynnti 2017 að hann væri hættur og ætlaði sér að leggjast í ferðalög. Rúmlega ári síðar blés Du Ritetz rykið af skónum og lék um skeið með Rhein-Neckar Löwen, hvar hann hafði verið í fimm áður en hann hætti. Du Ritetz fluttist síðan til Parísar og var í stóru hlutverki hjá franska stórliðinu í París. Í vor lagði Du Ritetz skóna aftur upp á hillu. Hvort þeir verða teknir niður í bráð er ómögulegt að segja til um. Du Ritetz hefur leikið 95 landsleiki fyrir Svía og var m.a. með liðinu á EM2020 og á HM2019.
- Auglýsing -