Noregur vann sjöunda stórsigurinn á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik í kvöld, 32:23, og vann sér þar með sæti í undanúrslitum mótsins. Noregur mætir annaðhvort Hollandi eða Ungverjalandi í undanúrslitum í Rotterdam á föstudag. Yfirburðir norska landsliðsins hafa verið gríðarlegir á mótinu og það hefur unnið leikina með samanlagt 116 marka mun, eða með 16,5 marka mun að jafnaði.
Aldrei lék vafi
Öll mótspyrna Svartfellinga var kæfð strax í upphafi viðureignarinnar í Westfalenhalle í kvöld. Norska liðið skoraði fimm fyrstu mörkin og lék síðan af fullum krafti allt til loka fyrri hálfleiks. Að honum loknum var munurinn átta mörk, 19:11. Lengi vel í fyrri hálfleik skoruðu Svartfellingar eitt mark fyrir hver tvö sem Norðmenn gerðu.
Ole Gustav Gjekstad landsliðsþjálfari Noregs lék nánast með sömu leikmönnum í fyrri hálfleik. Í byrjun þess síðari fór hann að hreyfa liðið meira til.

Átta mínútur á milli marka
Svartfellingar náðu að minnka muninn í níu mörk rétt fyrir miðjan síðari hálfleik þegar nærri átta mínútur liðu á milli 25. og 26. marks Noregs.
Eftir það bættu Norðmenn í forskot sitt og voru með 10 til 12 marka forystu allt til leiksloka er aðeins slaknaði á klónni.
Reistad markahæst
Henny Reistad skoraði níu mörk fyrir norska landsliðið. Nora Mørk var næst með fjögur mörk en hún lék aðeins síðari hálfleikinn.
Durdina Jaukovic var markahæst Svartfellinga með átta mörk.
HM kvenna ”25 – dagskrá, úrslit – síðustu dagarnir



