- Auglýsing -
- Auglýsing -

Skellur í síðari leiknum – Reistad meiddist

Þórir Hergeirsson landsliðþjálfari Evrópumeistara Noregs. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

Eftir stórsigur á franska landsliðinu á fimmtudaginn, 34:22, þá tapaði norska landsliðið, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, með sex marka mun í síðari vináttuleik liðanna í handknattleik kvenna í Frakklandi í gær, 25:19. Aðeins var eins marks munur á liðunum eftir fyrri hálfleik, 12:11. Leikirnir tveir eru einn þáttur í undirbúningi landsliðanna tveggja fyrir Ólympíuleikana sem hefjast í París 26. júlí. Handknattleikskeppni kvenna hefst tveimur dögum síðar, eftir réttar þrjár vikur.

Norska liðið varð fyrir áfalli snemma leiksins í gær þegar Henny Reistad fór af leikvelli meidd og kom ekkert meira við sögu. Vonir standa til þess að meiðslin séu ekki alvarleg né setji þau strik í reikning Reistad vegna þátttöku á Ólympíuleikunum. Reistad er að marga mati fremsta handknattleikskona heims um þessar mundir og þar af leiðandi lykilleikmaður, jafnt í vörn sem sókn, hins sterka norska landsliðs sem er ríkjandi Evrópumeistari.

Frakkar réðu lögum og lofum í síðari hálfleik í viðureigninni í gær og sýndu allt aðrar og betri hliðar en í fyrri viðureigninni. Varnarleikurinn var öflugur og Laura Glauser lokaði markinu á löngum köflum. Ekki síst reyndist Glauser norsku leikmönnunum óþægur ljár í þúfu í síðari hálfleik.

Frakkar eru heimsmeistarar í handknattleik kvenna og einnig Ólympíumeistarar frá síðustu leikum.

Nora Mørk og Thale Rushfeldt Deila voru markahæstar í norska landsliðinu með fimm mörk hvor. Alicia Toublanc var atkvæðamest í franska liðinu með sex mörk.

Norska landsliðið leikur tvo vináttuleiki til viðbótar áður en Ólympíuleikarnir hefjast, báða gegn danska landsliðinu. Fyrri viðureignin verður í Noregi 16. júlí en sú síðari tveimur dögum síðar í Kaupmannahöfn.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -