- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Skemmtilegt verkefni með viljugum hópi leikmanna

Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttu skipar sínum mönnum fyrir. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

„Vissulega verður það vinna að koma saman liðinu eftir miklar breytingar en ég vissi þegar ég fékk leikmennina til Gróttu að þar væru á ferðinni mjög viljugir piltar sem eru tilbúnir að leggja allt í sölurnar,“ sagði Róbert Gunnarsson þjálfari karlaliðs Gróttu þegar handbolti.is hitti hann stuttlega að máli og spurði hann út í undirbúningstímabilið. Róbert er að hefja sitt annað tímabil í stóli þjálfara Seltjarnarnessliðsins.

Sjö nýir leikmenn

Ekki færri en sjö leikmenn hafa gengið til liðs við Gróttu í sumar til þess að fylla skarð þeirra sem annað hvort hættu í vor að kusu að leita á önnur mið. Talsverð vinna er þar með fyrir höndum hjá þjálfarateymi Gróttu og leikmönnum við að koma saman samstæðu liði áður en keppni í Olísdeildinni hefst. Grótta sækir Framara heim í Úlfarsárdal í fyrstu umferð Olísdeildar föstudaginn 8. september.

Kátt á hjalla í Hertzhöllinni eftir sigurleik á síðasta tímabili. Mynd/Eyjólfur Garðarsson

Grótta hafnaði í níunda sæti Olísdeildar í vor eftir kapphlaup við Hauka á endasprettinum um áttunda og síðasta sæti í úrslitakeppninni. Grótta féll úr leik í Poweradebikarnum í 16-liða með tapi fyrir FH í Kaplakrika, 25:22.

Komnir:
Andri Fannar Elísson frá Haukum (að láni)
Ágúst Ingi Óskarsson frá Haukum.
Áki Hlynur Andrason frá Val.
Gunnar Dan Hlynsson frá Haukum.
Jón Ómar Gíslason frá Herði.
Ólafur Brim Stefánsson frá Fram.
Shuhei Narayama frá Wakunaga Leolic.

Skemmtilegt verkefni

„Menn æfa af krafti og hafa gert frá því að við byrjuðum fyrir nokkrum vikum. Fyrir þjálfara er það mjög skemmtilegt verkefni að vera með í höndunum mjög viljugan leikmannahóp. Svo verður tíminn að leiða í ljós hvort ég er nógu góður þjálfari til þess að koma þeim á rétt ról,“ sagði Róbert og glotti við tönn.

Lítið komið við bolta

„Við höfum æft í um þrjár vikur og lítið komið við bolta. Þar af leiðandi var talsverður byrjunarbragur á leik okkar gegn Aftureldingu í kvöld, kannski svipað því sem er raunin hjá flestum liðum um þessar mundir,“ sagði Róbert sem auk þátttöku í UMSK-mótinu stefnir hann með lið sitt á Ragnarsmótið á Selfossi sem fram fer í næstu viku.

Hættir /farnir:
Þorgeir Bjarki Davíðsson.
Akimasa Abe til Wakunaga Leolic.
Andri Þór Helgason til Aftureldingar.
Birgir Steinn Jónsson til Aftureldingar.
Daníel Andri Valtýsson til Víkings.
Theis Kock Søndergaard til Þýskalands.
Daníel Örn Griffin til Víkings. 
Ari Pétur Eiriksson leikmaður Gróttu. Mynd/Eyjólfur Garðarsson

Tekur sinn tíma

„Æfingaleikirnir eru mjög mikilvægir vegna þess að við erum með marga nýja leikmenn sem þurfa að spila sig saman við þá sem fyrir voru. Menn komast jafnt og þétt inn í hlutina um leið og við finnum hverjum og einum ákveðið hlutverk,“ sagði Róbert sem er spenntur fyrir komandi leiktíð.

Tveir á sjúkralista

Sem stendur æfa Gunnar Dan Hlynsson og Lúðvík Thorberg Arnkelsson ekki með Gróttuliðinu. Þeir eru að jafna sig af meiðslum m.a. sleit sá fyrrnefndi krossband í hné fyrir um ári. „Þeir bíða eftir grænu ljósi. Á meðan eru þeir í góðum höndum sjúkraþjálfara og fá sinn tíma.“

Gott lið með stríðsmönnum

Spurður hvort markmiðið væri að gera betur en í fyrra svaraði Róbert snarlega: „Þú færð alveg svakalega leiðinlegt svar við þessari spurningu. Ég er ekki að pæla í árangri síðasta vetrar. Ég einbeiti mér að því að búa til gott lið með stríðsmönnum sem hafa gaman af því að æfa og keppa,“ sagði Róbert Gunnarsson þjálfari karlaliðs Gróttu í samtali við handbolta.is í gærkvöld eftir fyrsta leik liðsins í UMSK-mótinu.

Leikjadagskrá Olísdeildar karla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -