- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Skildi mjög lítið á milli í þessu einvígi

Stefán Huldar Stefánsson markvörður Hauka ver eitt af fáum skotum sem geiguðu hjá Óðni Þór Ríkharðssyni í kvöld. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

„Við vorum einni vörn frá því að vinna og einni sókn frá framlengingu. Tæpara getur það nú varla verið. Það var mjög lítið sem skildi á milli í þessu einvígi,“ sagði Jónatan Þór Magnússon þjálfari KA eftir að lið hans féll naumlega úr leik í kvöld eftir þriggja leikja einvígi við Hauka, 31:30, á Ásvöllum og samanlagt 83:82.


KA var fjórum mörkum undir þegar átta mínútur voru til leiksloka, 29:25, en tókst að jafna metin, 29:29. „Annað liðið þurfti að tapa og því miður voru það við. Við lögðum gríðarlega mikið í leikina og seldum okkur þá hugmynd að við gætum unnið Hauka aftur á Ásvöllum, og það munaði svo sannarlega ekki miklu að það tækist. Ég held að það hefði verið minna svekkjandi að tapa þessum leik með tíu mörkum en einu,“ sagði Jónatan Þór sem var ánægður með margt í leik KA.

Sóknarleikurinn gekk mjög vel

„Sóknarleikurinn gekk mjög vel frá upphafi til enda en það segir sig sjálft að þegar við fáum á okkur þrjátíu og eitt mark þá var varnarleikurinn að sama skapi ekki góður. Við ætluðum okkur að gera betur í vörn og ná þar af leiðandi upp betri markvörslu,“ sagði Jónatan Þór.

Erum á góðri leið

„Ég er stoltur af því sem menn lögðu í leikina. Árangurinn sýnir að við erum á góðri leið með liðið og með félagið okkar. Vonandi getum við byggt á þessu. Fyrir tímabilið sögðumst við vilja vera með í úrslitaleikjum og gera okkur gildandi. Næsta skref er að halda áfram að byggja ofan á það sem gert hefur verið og feta okkur áfram brautina,“ sagði Jónatan Þór Magnússon, þjálfari KA, í samtali við handbolta.is á Ásvöllum í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -