Jafntefli nægði ÍR-ingum til þess að komast einir í efsta sæti Grill66-deildar karla í handknattleik í kvöld. Þeir fengu eitt stig í heimsókn sinni til Þórsara í Íþróttahöllina á Akureyri, 36:36, í leik sem loksins var hægt að koma á dagskrá af ástæðum sem flestum ættu að vera kunnar. ÍR-ingar voru vonsviknir að hirða ekki bæði stigin með sér suður á bóginn. Þeir áttu síðustu sókn leiksins en ekki er á allt kosið. Svipaða sögu má segja af Þórsurum samkvæmt færslu á Facebook-síðu þeirra í kvöld. Þeir hefðu ekki slegið hendinni á móti tveimur stigum.
Þórsarar voru þremur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 21:18. Eins og glöggt má lesa út úr tölunum var megináherslan ekki lögð á varnarleik á Akureyri í kvöld.
Sem fyrr segir er ÍR-ingar efstir með 27 stig að loknum 17 leikjum. Þeir hafa lokið einum leik fleira en Fjölnir og Hörður sem eru stigi á eftir. Hörður vann stórsigur á Selfossi í dag eins og fjallað var um hér, fyrr í dag á handbolti.is.
Þór er í fjórða sæti með 21 stig en á tvo leiki til góða á Fjölni og Hörð og þrjá á ÍR. Þórsarar gætu blandað sér í toppbaráttuna haldi þeir rétt á málum í þeim leikjum sem þeir eiga inni.
Dagur Sverrir Kristjánsson og Kristján Orri Jóhannsson voru allt í öllu hjá ÍR-ingum að þessu sinni. Þeir skoruðu samanlagt 23 mörk. Skarð var fyrir skildi hjá ÍR-liðinu. Andri Heimir Friðriksson tók út leikbann og Arnar Freyr Guðmundsson var fjarverandi vegna meiðsla.
Mörk Þórs: Arnór Þorri Þorsteinsson 8, Heimir Pálsson 7, Tomislav Jagurinovski 7, Halldór Yngvi Jónsson 4, Aron Hólm Kristjánsson 3, Jóhann Einarsson 3, Garðar Már Jónsson 3, Josip Kezic 1.
Mörk ÍR: Dagur Sverrir Kristjánsson 12, Kristján Orri Jóhannsson 11, Gabríel Freyr Kristinsson 4, Hrannar Ingi Jóhannsson 3, Viktor Sigurðsson 3, Ólafur Atli Malmquist 2, Ingólfur Arnar Þorgeirsson 1.
Stöðu og næstu leiki í Grill66-deild karla má finna hér.