Það virtust nær allir skilja sáttir frá slag Hafnarfjarðarliðanna, Hauka og FH, í Olísdeild karla á Ásvöllum í gær. Niðurstaða leiksins var jafntefli, 24:24, í hörkuleik og í mjög góðri stemningu enda var fjölmenni á leiknum, eitthvað á annað þúsund áhorfendur. Staðan var einnig jöfn að loknum fyrri hálfleik, 11:11.
FH-ingar voru sterkari í síðari hálfleik og lengst af með frumkvæðið þar til undir lokin að Haukum tókst að ná meiri tökum á leiknum, ekki síst eftir að hafa breytt yfir í 5/1 vörn. Þeir áttu sókn sem endaði án marks hálfri mínútu fyrir leikslok. FH-ingar fengu þar með lokasóknina en tókst ekki að færa sér hana til tekna.
FH heldur þar með öðru sæti deildarinnar með 22 stig eftir 17 leiki og mætir ÍBV í Kaplakrika á fimmtudaginn. ÍBV er tveimur stigum á eftir.
Haukar gleðjast yfir hverju stigi sem treystir stöðu þeirra réttu megin í hópi efstu átta liða deildarinnar.
Vöknuðu of seint
Fram blandaði sér í 19 stiga hópinn með Aftureldingu, Selfossi og Stjörnunni, með því að leggja Gróttu, 31:30, í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi. Framarar höfðu forskot frá upphafi til enda, yfirleitt fjögur til sex mörk.
Leikmenn Gróttu blésu til sóknar undir lokin en höfðu ekki erindi sem erfiði.
Þeir fjarlægðust þar með áttunda sætið, alltént í bili, en enn eru fimm umferðir eftir. Grótta er með 13 stig í níunda sæti.
Fram var yfir 18:14 að loknum fyrri hálfleik eftir að hafa verið átta mörkum yfir fimm mínútum fyrr.
Starri skoraði 14 á Ísafirði
Stjarnan vann sér inn tvö stig í heimsókn til Ísafjarðar, 35:25. Harðarmenn veittu talsvert viðnám í fyrri hálfleik og voru aðeins marki undir þegar gengið var til búningsherbergja. Lærisveinar Patreks Jóhannessonar tóku af skarið í síðari hálfleik og sigldu jafnt og þétt framúr allt til leiksloka.
Starri Friðriksson, leikmaður Stjörnunnar, kunni vel við sig í sjávarloftinu vestra. Hann skoraði 14 mörk.
Róður Harðarmanna þyngist stöðugt með hverri umferðinni sem líður án þess að nokkuð aflist.
Staðan í Olísdeild karla og næstu leikir.
Úrslit kvöldsins og markaskorarar
Haukar – FH 24:24 (11:11).
Mörk Hauka: Stefán Rafn Sigurmannsson 6, Adam Haukur Baumruk 5, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 5, Ólafur Ægir Ólafsson 2, Heimir Óli Heimisson 2, Tjörvi Þorgeirsson 1, Geir Guðmundsson 1, Össur Haraldsson 1, Andri Már Rúnarsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 7, 22,6% – Matas Pranckevicus 1.
Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 6, Birgir Már Birgisson 4, Jón Bjarni Ólafsson 3, Einar Bragi Aðalsteinsson 3, Jakob Martin Ásgeirsson 2, Einar Örn Sindrason 2, Ágúst Birgisson 2, Jóhann Birgir Ingvarsson 2.
Varin skot: Phil Döhler 12, 34,3%.
Grótta – Fram 30:31 (14:18).
Mörk Gróttu: Birgir Steinn Jónsson 8, Hannes Grimm 5, Þorgeir Bjarki Davíðsson 5, Lúðvík Thorberg Arnkelsson 4, Ágúst Emil Grétarsson 3, Jakob Ingi Stefánsson 2, Theis Koch Søndergard 2, Ari Pétur Eiríksson 1.
Varin skot: Daníel Andri Valtýsson 15, Einar Baldvin Baldvinsson 3.
Mörk Fram: Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 7, Marko Coric 6, Ívar Logi Styrmisson 5, Stefán Orri Arnalds 4, Stefán Darri Þórsson 2, Breki Dagsson 2, Reynir Þór Stefánsson 2, Ólafur Brim Stefánsson 1, Kristófer Dagur Sigurðsson 1, Þorvaldur Tryggvason 1,
Varin skot: Breki Hrafn Árnason 11, Magnús Gunnar Erlendsson 1.
Hörður – Stjarnan 25:35 (13:14).
Mörk Harðar: Axel Sveinsson 4, Leó Renaud-David 4, Guntis Pilpuks 3, Jón Ómar Gíslason 3, Sudario Eidur Carneiro 2, Suguru Hikawa 2, Guilherme Andrade 2, Daníel Wale Adeleye 1, José Esteves Neto 1, Óli Björn Vilhjálmsson 1, Jhonatan Santos 1, Victor Iturrino 1.
Varin skot: Rolands Lebedevs 7, Stefán Freyr Jónsson 3.
Mörk Stjörnunnar: Starri Friðriksson 14, Gunnar Steinn Jónsson 5, Hjálmtýr Alfreðsson 5, Hergeir Grímsson 3, Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson 2, Þórður Tandri Ágústsson 2, Sigurður Dan Óskarsson 1, Brynjar Hólm Grétarsson 1, Ari Sverrir Magnússon 1, Björgvin Þór Hólmgeirsson 1.
Varin skot: Sigurður Dan Óskarsson 3. Aðrir ekkert samkvæmt HBStatz.
Staðan í Olísdeild karla og næstu leikir.
Fylgst var með leikjunum á leikjavakt.