„Það var mjög gott fyrir okkur að stimpla okkur inn í mótið, vinna leikinn og fá fyrstu stigin. Það skiptir miklu máli fyrir framhaldið,“ sagði Bjarki Már Elísson landsliðsmaður í handknattleik sem skoraði 12 mörk í 13 skotum þegar íslenska landsliðið vann landslið Alsír, 39:24, í annarri umferð F-riðils heimsmeistaramótsins í Kaíró í kvöld.
„Spilamennskan á liðinu var mjög góð hjá okkur enda var markmiðið að lenda ekki í jöfnum leik þegar kæmi fram í síðari hálfleik. Í slíkri stöðu geta leikmenn Alsír verið til alls líklegir. Þess vegna var mikilvægt að geta skilið við þá sem fyrst og forðast allt vesen,“ sagði Bjarki sem var þremur mörkum frá að jafna markamet Snorra Steins Guðjónssonar í HM-leik sem er 15 mörk í framlengdum leik við Dani á HM 2007. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 14 mörk í hefðbundnum leiktíma gegn Ástralíu á HM 2003.
„Ég veit ekki hvert markametið er og spáði þess vegna ekkert í slíkt. Gummi tók mig út af eftir 40 mínútur og Oddur tók við. Ég samgleðst honum þar sem hann kom flottur inn í leikinn. Því miður var eitt skot sem missti marks hjá mér,“ sagði Bjarki Már léttur í bragði.
Sama ákefð gegn Marokkó
Á mánudagskvöld leikur íslenska landsliðið síðasta leikinn í riðlakeppninni. Þá mætir liðið Marokkó sem er veikara ef eitthvað er en lið Alsír. „Við verðum að koma með sömu ákefð inn í þann leik. Ég reikna með að það verði ærið verkefni enda hefur maður séð Marokkómenn byrja báða leiki sína mjög vel þótt þeir hafi svo misst dampinn þegar liðið hefur á leikinn. Við verðum bara að sjá til til þess að þeir komist aldrei í gírinn,“ sagði Bjarki Már Elísson í samtali við handbolta.is eftir leikinn í kvöld í Kaíró.