Haukar og Stjarnan skildu jöfn, 20:20, í upphafsleik 7. umferðar Olísdeildar karla í handknattleik á Ásvöllum í kvöld. Staðan var einnig jöfn að loknum fyrri hálfleik, 10:10. Bæði lið fengu sóknir á síðustu mínútunni sem ekki tókst að skora úr. Haukar unnu t.d. boltann 15 sekúndum fyrir leikslok, tóku leikhlé en náðu ekki að opna vörn Stjörnunnar fyrr en um seinan. Markskot Skarphéðins Ívars Einarssonar rataði rétta leið í netið þegar leiktíminn var á enda runninn.
Viðureignarinnar verður seint minnst fyrir stórbrotinn sóknarleik, mikið fremur fyrir baráttu. Stigið í kvöld var einungis annað sem leikmenn Hauka vinna í síðustu fimm leikjum.
Þrátt fyrir það eru Haukar í fjórða sæti Olísdeildar með átta stig en þeir ásamt FH hafa leikið einum leik meira en önnur lið deildarinnar. Stjarnan er stigi á eftir Haukum.
Geir Guðmundsson, leikmaður Hauka, var studdur af leikvelli 13 mínútum fyrir leikslok eftir að hafa fengið högg á læri. Óvissa ríkir um þátttöku hans í Evrópuleik Hauka gegn finnska liðinu Cocks á sunnudaginn á Ásvöllum. Össur Haraldsson fékk högg á nefið í síðari hálfleik og kom ekkert við sögu eftir það.
Ólafur Ægir Ólafsson var ekki með Haukaliðinu í kvöld.
Skarð er áfram fyrir skildi hjá Stjörnunni vegna fjarveru Sveins Andra Sveinssonar. Hann hefur ekki leikið með eftir að hafa meiðst illa á hæl í viðureign gegn FH í Hekluhöllinni í lok síðasta mánaðar. Óvíst er hvenær von er á Sveini Andra til baka út á völlinn.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk Hauka: Sigurður Snær Sigurjónsson 4, Skarphéðinn Ívar Einarsson 3, Hergeir Grímsson 3, Andri Fannar Elísson 3/2, Adam Haukur Baumruk 3, Geir Guðmundsson 2, Þráinn Orri Jónsson 1, Egill Jónsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 6/2, 35,3% – Vilius Rasimas 4, 30,8%.
Mörk Stjörnunnar: Tandri Már Konráðsson 8/3, Hans Jörgen Ólafsson 4, Jóel Bernburg 2, Starri Friðriksson 2, Benedikt Marinó Herdísarson 2/1, Ísak Logi Einarsson 1, Hjálmtýr Alfreðsson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 6, 27,3% – Sigurður Dan Óskarsson 3/1, 42,9%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.