- Auglýsing -
Danska úrvalsdeildarliðið Skjern staðfestir í morgun að Elvar Örn Jónsson, landsliðsmaður í handknattleik yfirgefi félagið við lok leiktíðar í vor eftir tveggja ára veru.
Ekki kemur fram hvert Elvar Örn heldur í sumar en eins og visir.is greindi fyrstur frá á dögunum og handbolti.is í framhaldinu þá mun Elvar Örn vera á leið til Melsungen í Þýskalandi, liðsins sem Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar og Arnar Freyr Arnarsson landsliðsmaður leikur með.
Elvar Örn kom til Skjern fyrir nærri tveimur árum og hefur leikið stórt hlutverk hjá liðinu síðan.
Fullvíst má telja að Melsungen greini frá komu Elvars Arnar strax eftir helgina eða í síðasta lagi þegar heimsmeistaramótinu verður lokið.
- Auglýsing -